Fjársöfnun – Kópavogskirkja lýst að utan.
Listaverki Doddu Maggýjar verður varpað á Kópavogskirkju frá kl. 18:30 til miðnættis á Safnanótt í Kópavogi 3. febrúar nk. Stundin markar upphaf söfnunarátaks kirkjunnar en safnað er fyrir viðgerðum á þakdúkum, rafkerfum, lýsingu og steindum gluggum eftir Gerði Helgadóttur. Eftir að kveikt verður á verkinu verður friðarstund inni í kirkjunni. Tónlistarhópurinn Umbra og Lenka Matéova organisti flytja tónlist og sýndir verða safnmunir kirkjunnar. Allir eru velkomnir. Á Safnanótt er einnig fjöldi list- og menningarviðburða í Menningarhúsum Kópavogsbæjar.
Ljósverkið er fjármagnað úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar og er hluti af Safnanótt í Kópavogi. Með verkinu er þó jafnframt verið að vekja athygli á söfnunarátaki kirkjunnar og steindum gluggum Gerðar sem liggja undir skemmtum. Verkið vísar í gluggana. Kópavogskirkja er tákn bæjarins og teygir sig yfir Menningarhús þess svo sem Gerðarsafn, sem reist var til minningar um Gerði Helgadóttur.
Með söfnunarátaki er vonast til að hægt verði að koma í veg fyrir að menningarverðmæti skemmist.
Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju, segir að kostnaðaráætlun viðgerðanna liggi ekki nákvæmlega fyrir en áætlað er að kostnaður sé í kringum 20 milljónir. Kársnessöfnuður geti ekki staðið straum af viðgerðunum nema með góðri hjálp. Á síðustu misserum var ytri byrði kirkjunnar tekin í gegn og kirkjan máluð að utan. Ungur aðdáandi kirkjunnar sagði þá í hrifningu: „Hún er orðin falleg aftur.”
Ljósaverkefnið og dagskráin í kirkjunni er unnin í samstarfi Sigurðar, samstarfsmanna, sóknarnefndar Kópavogskirkju og starfsmanna Menningarhúsa Kópavogsbæjar. Dagskrá Safnanætur í Kópavogi hefst kl. 18.00 og er hægt að kynna sér hana nánar á vef Kópavogsbæjar.
Kópavogskirkja var reist á árunum 1958-1962 eftir teikningum frá embætti húsameistara ríkisins sem Hörður Bjarnason veitti forstöðu á þeim tíma. Ragnar Emilsson arkitekt hjá embættinu vann ásamt húsameistara mjög mikið að teikningu kirkjunnar. Grunnur kirkjunnar var helgaður þann 16. ágúst árið 1958 og hornsteinn lagður af biskupi Íslands þann 20. nóvember árið eftir. Það var svo þann 16. desember árið 1962 sem kirkjan var vígð af Sigurbirni Einarssyni þáverandi biskupi Íslands.
Kópavogskirkja er krosskirkja og að því leyti er hún hefðbundin en bogar hennar, sem svo mjög einkenna hana, gera hana sérstaka og gefa henni í senn bæði tignarlegt og mjúkt yfirbragð. Kirkjan þykir fögur og góður vitnisburður um þá sem að unnu og verðug umgjörð um helgihald og tilbeiðslu.
Inni í kirkjunni er altaristafla eftir Steinunni Þórarinsdóttur og skírnarfontur og skildir á prédikunarstóli eftir Barböru Árnason. Þessi þrjú höfuðlistaverk kirkjunnar, gluggarnir, altaristaflan og skírnarfontur, eru því eftir konur. Í eigu kirkjunnar er einnig forgöngukross og forgöngukertastjakar eftir Evu Björnsdóttur, gullsmið og Kristsmynd í anddyri eftir Benedikt Gunnarsson.
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á söfnunarreikning kirkjunnar: 0536-26-630000, kt. 6912720529.
Ábyrgðarmaður söfnunarinnar er: Sóknarnefnd Kópavogskirkju.