Prédikun sr. Hjartar Pálssonar á Hallgrímshátíð í Kópavogskirkju 26. október

Á Hallgrímshátíð í Kópavogskirkju 26. okt. 2014

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Á þessu ári eru fjórar aldir liðnar frá fæðingu Hallgríms Péturssonar. Fæðingardaginn vitum við ekki, en dánardagur hans var 27. október 1674, svo að ártíð hans er á morgun. Vel fer á því að heiðra minningu hans og votta honum þjóðarþökk á 400 ára afmæli með guðsþjónustu á Hallgrímshátíð hér og víðar í dag, en orðum mínum mun ég fremur beina að arfleifð hans en ævi. Víða má um hana fræðast að því marki sem hún er þekkt – að ógleymdri þeirri drögu sem spunameistarar þjóðsagna og munnmæla hafa skilið eftir sig. Ég bið ykkur aðeins að hafa í huga, hve mannlegur hann var – að skrykkjóttur ferill hans framan af ævi og það sem fyrir hann kom um dagana hefur án efa átt ósmáan þátt í hver hann varð í lífi sínu, lífsviðhorfi og skáldskap. Og að ekki þótti öllum mikið til um prestsefnið þegar að vígslu hans kom með velgjörðamann á biskupsstóli að bakhjarli.

Það væri hægurinn hjá að flétta ritningartexta dagsins við trú og guðfræði Hallgríms Péturssonar og skáldskap hans yfirleitt og hnykkja þannig enn á orði Guðs, því að vel falla þar þræðir saman. Amos spámaður leiddi að orðunum sem þið heyrðuð lesin, með áhyggjum af rangsnúnu hugarfari, glæpum og spillingu í samfélagi síns tíma og deildi á fólk sitt sem hann brýnir fyrir að leita góðs í stað ills. Pistillinn er eggjun um að vera vakandi, með styrk og djörfung og auðsýna kærleik í öllu sem fólk aðhefst, en orð Jesú í guðspjallstextanum eru áminning um að gleyma ekki því sem of oft vill farast fyrir, að gefa Guði dýrðina fyrir máttarverk hans og þær gjafir sem þegnar hafa verið úr hendi hans.

Varla fer því fjarri, þótt ekki verði sannað, en aðeins leiddar að því sterkar líkur, að ekkert heilt erindi úr skáldskap Hallgríms hafi jafn margir Íslendingar lært á barnsaldri og kunnað til æviloka síðustu þrjár og hálfa öld og þær fjórar braglínur úr 44. passíusálmi sem við lásum saman áðan. Ætla má jafnframt að oft hafi þetta verið eitt fyrsta bænaversið sem þeim var kennt og settist því snemma að í vitund þeirra. Sú var til dæmis mín reynsla, og urðu því önnur tvö samferða um svipað leyti: Vertu yfir og allt um kring og Láttu nú ljósið þitt.

Um orðið þjóðskáld hefur margt verið sagt og skrifað án þess að full samstaða hafi nokkru sinni náðst um nákvæma akademíska skilgreiningu þess eða hverjum það tignarheiti bæri helst. Oft sýnist það hafa farið mest eftir smekk og skaplyndi mælandans og samhenginu hvað orðið hefur ofan á hverju sinni. Svipuðu máli gegnir um orðið heimsbókmenntir sem rakið hefur verið til þýsku, Weltliteratur. Árni Magnússon handritasafnari var næstum 40 árum yngri en Hallgrímur Pétursson og ófæddur svo munaði fjórum árum þegar Passíusálmarnir voru fullortir. En því nefni ég þetta nú, að  svo snemmborin var skáldfrægð og ástsæld Hallgríms meðal Íslendinga að í bréfi frá 1705 kallar Árni hann þjóðskáld. Heimsbókmenntir hafa Passsíusálmarnir orðið í þeim skilningi að með tímanum hafa þeir víðar vakið athygli, orðið æ fleirum rannsóknarefni og farið lengra í þýðingum, jafnvel á fjarlægustu tungur, en ýmsir myndu ætla sem ekki hafa mikið verið að velta því fyrir sér.

Hvað veldur? Hvert er það lífsmagn sem býr í verkum Hallgríms og hugmyndunum, eftir atvikum ýmist réttum eða röngum, sem við landar hans höfum gert okkur um höfundinn? Þótt meistaratitillinn hafi nú um sinn sætt æði miklu gengisfalli vegna ofnotkunar í auglýsingaþjóðfélagi samtímans og merkimiðinn þjóðskáld hafi oftar verið hengdur á aðra en Hallgrím, hygg ég að í ljósi sögunnar og þeirrar stöðu sem hann og bestu verk hans hafa notið og njóta enn með þjóðinni mætti færa mörg og ólík rök að því að mesta trúarskáld hennar hafi verið eitt af þjóðskáldunum. Líklega eru þó engin af þeim rökum auðskildari og augljósari en þau sem Halldór Laxness orðaði þannig á einni af náðarstundum sínum í afmæliskveðju sem hann skrifaði um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi fimmtugan, en hinn síðarnefndi var öðrum oftar kallaður þjóðskáld um sína daga: „Skáld verður þjóðskáld af því hann finnur alveg óumdeilanlega leiðina að hjarta hvers venjulegs manns…“ Enginn vafi leikur á því að þá leið rataði Hallgrímur, og skáldskapur hans var í senn svo fjölbreyttur og mikill að vöxtum að ólíkasta fólk hefur getað fundið í honum svarið sem það leitaði hverju sinni í gamni og alvöru og hæfði litblæ og geðslagi stundarinnar. Við megum að vísu ekki gleyma því, hve miklu tafsamara og torveldara var af ýmsum ástæðum fyrir alþýðu manna hér áður fyrr að nálgast eða eignast prentuð rit eða afla sér fróðleiks og upplýsinga en við eigum að venjast í flóðinu sem  á okkur skellur nú úr öllum áttum í ýmsu formi. Passíusálmarnir voru þó sífellt prentaðir að nýju, og lengi var helst von sálmakveðskapar og guðræknisrita úr prentverki landsins meðan kirkjan hafði umráð þess – og þess naut Hallgrímur. En fólk lærði líka og lagði á minnið miklu fleira en nú og maður sagði manni, ekki síst kveðskap sem studdist við stiklusteina bragformsins og arfbundinn stíl og hugmyndaheim, og sitthvað gekk bæja og manna á milli í nýjum og nýjum uppskriftum. Heimilisguðrækni og kvöldvökur hjálpuðu til uns ný öld rann upp og rýmkaðist um aðföng og lesefni, þótt alls óvíst sé að fólk hafi þá upp of ofan lesið eða lært meira en áður. Margir hafa þó fram á þennan dag kunnað stakar vísur úr Hallgrímsljóðum eða haft á hraðbergi línu eða línur sem svo eru skýrt mótaðar að hugsun og orðfæri að þær hafa í raun runnið átakalítið í sjóð íslenskra málshátta eða orðskviða. Eða skyldu t.d. ekki ýmsir kannast við þetta úr Ölerindum án þess að vita kannski hver orti:

Gott er að hætta hverjum leik,
þá hæst fram fer.

Þótt Hallgrímur rataði leiðina sem liggur til hjartans, er hvorki þar með sagt að leið hans sjálfs til þess trúar- og listþroska, sem gæðir Passíusálmana og annað sem hann orti best, mestum krafti og skáldskapargildi hafi verið krókalaus og auðfarin né að lesendur hans fyrr og síðar hafi getað fylgt honum eftir án þess að steyta á steini og stinga við fótum öðru hverju. Sagan segir okkur að öld Hallgríms Péturssonar hafi verið öld hins evangelísk-lútherska réttrúnaðar á Íslandi öðrum fremur, og bæði á hans dögum og síðar hefur ströng túlkun kenningarinnar og sumra grundvallarsetninga trúarinnar reynt á þolrif ýmissa játenda hennar. Stundum hefur það vakið hjá þeim andóf eða afneitun, og guðfræðilegar áherslur hafa sveiflast til í tímans rás. Sextíu ára ævileið Hallgríms sjálfs lá yfir hraun og klungur og hlýtur stundum að hafa kostað hann meiri baráttu og sálarstríð en hann lætur að jafnaði uppi í ljóðum sínum. Vera má að einhvern tíma hafi það einnig náð til einhverra atriða trúfræðinnar, en aldrei svo að í sálmum hans og ljóðum sýnist það hafa skekið grunninn svo að holt sé undir, og ekki  voru þeir líkir í afstöðu sinni og skaplyndi, harmkvælamaðurinn Job í reiði sinni og þráhyggjustríði við Guð sinn og séra Hallgrímur í Saurbæ sem orti eftir bæjarbrunann:

Guð er minn guð, þó geisi nauð
og gangi þanninn yfir.

Það er einmitt þessi óbifandi staðfesta, þetta takmarkalausa trúartraust, þessi trú byggð á bjargi, sem er loginn og ylurinn í áhrifamestu sálmum hans og sálmversum og gerir þennan skáldskap að sígildu dæmi listar og fegurðar þar sem hvergi hattar fyrir þegar kraftur einlægrar innlifunar, kjarnmikið tungutak og myndmál lyftir honum í hæðir. Glæsileg dæmi þess eru næg úr Passíusálmunum, t.d. í erindum sem þaðan eru tekin og sungin í þessari guðsþjónustu, en allir sálmarnir í dag eru eftir Hallgrím, sumir við ný lög.

Það er alkunna og um það óteljandi vitnisburðir, hve margir hafa sótt huggun og styrk í Hallgrímssálma. En þar, rétt eins og í lífinu sjálfu eða orði Guðs, sem er „klárt og kvitt“, skiptast á skin og skuggar, harkan og mýktin. Þegar hann skoðar hug sinn og breytni játar hann að hann hafi lítt gefið sig að trúnni, í sér sé lítil rækt og syndin þungur baggi. Þótt ekki megi án fyrirvara leggja alveg sömu merkingu og nú í orðið glæpur í fyrsta passíusálmi, segir Hallgrímur þar er hann ávarpar Frelsara sinn:

…hlæjandi glæpa hljóp ég stig,
hefur þú borgað fyrir mig.

Í 24. sálmi er honum reiði Guðs staðreynd og umhugsunarefni:

Margir ætla, fyrst ekki strax
á fellur hefndin sama dags,
Drottinn þá aldrei muni meir
minnast á það, sem gjörðu þeir.

Þeim sem sekt og óvissa hrjá í þeim sporum leggur hann óbeint sitt eigið ráð:

Athvarf mitt jafnan er til sanns
undir purpurakápu hans,
þar hyl ég misgjörð mína.

Allt ber að sama brunni. Í öllum vanda og áhyggjum þessa heims var svar Hallgríms staðföst  trúarvissa um opinn faðm Frelsarans, kærleika og náð Guðs, og bænin sem engan má bresta, grundvölluð á orði hans, var leiðarhnoðað sem vísaði veginn. En hvergi var sú trúarvissa tjáð með öðrum eins myndugleik og í síðustu línum kvæðisins Um dauðans óvissan tíma sem sungnar hafa verið yfir flestum Íslendingum á útfarardegi frá því á sautjándu öld:

Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt.
Í Kristí krafti eg segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.

Úr bókmenntum þekki ég ekki skýrara dæmi um óbilandi, næstum ögrandi sannfæringu eða djarfmannlegra ávarp andspænis dauðanum. Huggarinn Hallgrímur gat reist við brotinn reyr með vongleði sinni og trúarstyrk sem frá sálmum hans stafaði, en líka með friðandi mýkt þeirra og mildi eins og í lokaversi 4. passíusálms:

„Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki, þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.“

Á minningardegi Hallgríms má ekki gleymast hvern þátt veraldlegu kvæðin hafa átt í vinsældum hans og hve mjög þau skýra mynd hans og auka fjölbreytnina séu þau tekin með í reikninginn. Í heimsósóma- og ádeilukvæðum eins og Flærðarsennu og Aldarhætti kynnumst við nýrri hlið Hallgríms og bragfimi, í –öðrum gerir kankvísi hans og hugkvæmni lesanda glatt í geði. Og svo orti hann auðvitað rímur og sýndi þar með hve vel hann var heima í skáldskaparmálum, kenningasmíð og fornum fræðum aftan úr rökkri heiðninnar. Í Leirkarlsvísum sækir hann efnið í hversdagsumhverfi sitt. Gaman og alvara vega salt þar sem hann sér og fer afar vel með líkinguna milli sín og ölkönnunnar og útmálar skyldleikann af notalegri kímni í fjórum erindum sem hefjast þannig:

Skyldir erum við skeggkarl tveir.
Skammt mun ætt að velja.
Okkar beggja er efni leir.
Ei þarf lengra telja.

En í fimmta og síðasta erindinu er sköpum skipt með þeim, því að sál hefur vesalings leirkrúsin naumast og litla von um eilíft líf – en þrátt fyrir þann annmarka bregst skáldinu ekki sú bogalist að halda til loka sama tvíhverfa tóni glettni og trega og sleginn var í byrjun:

Einn eg mismun okkar fann,
ef áföll nokkur skerða:
Eg á von, en aldrei hann
aftur heill að verða.

Hátt á fjórðu öld hefur Hallgrímur Pétursson nú verið fylgdarmaður Íslendinga í trúarlífi þeirra og skáldskap. Með fyrstu bænaversunum og heilræðavísunum sem við lærðum, með trúfræðslu, siðaboðskap og áminningum sálmanna og skemmtun af veraldlegum kveðskap á fullorðinsárum, með huggunar- og útfararsálmum á kveðjustund. Og enn lifir Hallgrímur – maðurinn, skáldið og verk þess – svo sterkt í vitund landsmanna, að sú spurning getur vaknað, hvort þráðurinn á milli hans og þeirra hafi nokkurn tíma verið sterkari, fjölþættari eða eins skapandi og nú. Þetta birtist á margan hátt í ýmsum myndum. Frá lýðveldisstofnun hafa Passíusálmarnir verið lesnir í útvarp og í mörgum kirkjum á föstunni í seinni tíð. Bókmenntirnar um Hallgrím eru orðnar miklar að vöxtum í fræðum og skáldskap, eins og ný ljóð, skáldsögur og fræðirit sýna. Í Stofnun Árna Magnússonar er unnið að fræðilegri útgáfu Hallgrímsljóða. Í útvarpi, sjónvarpi og á leiksviði hefur Hallgrímur komið við á liðnum árum. Nýjar myndir af honum verða enn til og sjást á sýningum, og samtímatónskáld á ýmsum aldri semja ný lög við ljóð hans og sálma, sum hver með djassívafi. Og vegna þessa er mynd hans auðvitað í sífrjórri endurskoðun.

Þótt Hallgrímur sækti margt í sinn íslenska skáldskapar- og stílarf og einkenni hans, hefur Margrét Eggertsdóttir fært að því rök í doktorsriti sínu að hann hafi ekki aðeins verið íslenskt útkjálkaskáld, heldur að list og lærdómi átt vel heima með skáldum sem stóðu í miðjum straumi evrópskra samtímabókmennta, eins og hún gefur í skyn með ritgerðarheitinu Barokkmeistarinn.

Son Guðs syndugum manni
sonararf skenktir þinn,

kvað Hallgrímur um Frelsara sinn. Sjálfur skenkti hann þjóð sinni dýran arf sem borið hefur og ber enn ríkulegan ávöxt, og gott er til þess að vita að Hallgrímslindin er enn ekki þornuð.

Hjörtur Pálsson 

Guðsþjónusta 2. nóvember 2014

Sunnudaginn 2. nóvember n.k. verður guðsþjónusta á “Allra sálna messu” í Kópavogskirkju kl. 11:00.  Þá er þeirra sérstaklega minnst, sem eru látin. Beðið verður með nafni fyrir þeim, sem sóknarprestur Kópavogskirkju hefur jarðsungið  á tímabilinu 20. október 2013- til 20. október 2014 og aðstandendum þeirra er boðið sérstaklega til guðsþjónustunnar.

Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari ásamt Ástu Ágústsdóttur, djákna.  Sunnudagskólinn hefst að venju í kirkjunni á sama tíma en flytur sig síðan í safnaðarheimilið Borgir.  Flutt verður tónlist í kirkjunni frá kl. 10:30 og þá gefst kostur að tendra á bænaljósi við altari.  Eftir guðsþjónustu verður boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu Borgum.  Ásta Ágústsdóttir, djákni mun þá fjalla um sorg og sorgarviðbrögð. Ef tækifæri er til eru þau sem geta beðin um að koma með eitthvað á hádegisverðarhlaðborð í safnaðarheimilinu (opið verður þar frá kl.10:30).

Allir velkomnir.

Foreldramorgnar á fimmtudögum

Foreldramorgnar eru vikulega yfir veturinn á fimmtudögum frá kl. 10:00-12:00 í safnaðarheimilinu Borgum. Umsjón með starfinu hefur Ólafía Lindberg Pétursdóttir.

Starf fyrir 1.-4. bekk

Vikulegt starf er fyrir börn í 1.-4. bekk á miðvikudögum í safnaðarheimilinu Borgum.  3.-4. bekkur hittist þar kl. 14:00-15:00 og 1.-2. bekkur frá kl. 15:30-16:30.  Boðið er upp á náð sé í börnin í Dægradvöl Kársnesskóla.

Allir velkomnir.

Æskulýðsfundur fyrir 8. bekk

Æskulýðsfundir eru fyrir 8. bekk á þriðjudagskvöldum frá kl. 20:00-21:30 í safnaðarheimilinu Borgum.

Umsjón með fundunum hafa: Ýr Sigurðardóttir, Ágústa Tryggvadóttir, Helgi Steinn Björnsson og Bjarmi Hreinsson.

Hallgrímshátíð

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 26. október n.k. kl.11:00.  Sr. Hjörtur Pálsson, prédikar og fjallar sérstaklega um sr. Hallgrím Pétursson.  Sr. Sigurður Arnarson, þjónar fyrir altari.  Sungnir verða sálmar eftir sr. Hallgrím.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.

Sunnudagaskólinn er í umsjón: Ágústu Tryggvadóttur, Bjarma Hreinssonar og Odds Arnar Ólafssonar.  Eftir guðsþjónustu mun dr. Margrét Eggertsdóttir flytja erindi um sr. Hallgrím í safnaðarheimilinu Borgum.

Allir velkomnir.

Fermingarfræðsluferð í Vatnaskóg

Fermingarfræðsluferð verður í Vatnaskóg 23. október n.k. Lagt verður kl. 08:00 af stað frá Kópavogskirkju og komið til baka um kl. 21:00.

Nauðsynlegt er að sótt sé um leyfi fyrir ferðalaginu í viðkomandi grunnskóla.

Mál dagsins 21. október 2014

Mál dagsins verður þriðjudaginn 21. október n.k. kl. 14:30-16:00.  Stundin hefst að venju á samsöng undir stjórn Lenku Mátéová og Friðriks Kristinssonar. Um kl. 15:10 mun Ingibjörg Steingrímsdóttir flytja erindi um Bráræðisholtið í Reykjavík.  Klukkan 15:30 er drukkið kaffi og stundinni lýkur kl. 16:00 með stuttri helgistund.

Allir velkomnir.

Fermingarfræðsla

Fermingarfræðsla mánudaginn 20. október kl.15:10 fellur niður vegna þess að vetrarfrí er í Kársnesskóla.  Næsti vetrarfermingarfræðslutími er 27. október n.k. kl. 15:10.

Guðsþjónusta 12. október síðastliðinn

Meðfylgjandi myndir voru teknar í guðsþjónustu 12. október s.l.  Eftir guðsþjónustuna var sýngin Leifs Breiðfjörð “Litir ljóssins” opnuð í safnaðarheimilinu Borgum.

20141012_120516-150x150 20141012_120616-150x150 20141012_120933-150x150 20141012_121223-150x150 20141012_123008-150x150 20141012_123151-150x150