Kærleikssmiðjan, sem starfrækt hefur verið í safnaðarheimilinu Borgum hvern sunnudag, er nú komin í pásu til sunnudagsins 23. apríl.
Þau börn sem hafa sótt smiðjuna hafa, frá áramótum, unnið með söguna Miskunnsami Samverjinn í gegnum hin ýmsu listform: tónlist, leiklist, skúlptúragerð og nú síðast ljósmyndun. Síðasta sunnudag fengu börnin að velja sér orð til að nota sem innblástur í ljósmyndir og völdu þau orðið: Fyrirgefa.
Kennarar smiðjunnar aðstoðuðu börnin við að finna myndefni og stilla því upp og úr varð aldeilis skemmtileg myndasería. Hér fyrir neðan er hluti af seríunni en seríuna í heild sinni má skoða á uppskeruhátíð Kærleikssmiðjunnar sem haldin verður í fjölskyldumessu í Kópavogskirkju, sunnudaginn 23. apríl klukkan 11.00. Á uppskeruhátíðinni verða einnig flutt lög sem börnin hafa samið í samvinnu við kennara, skúlptúrar barnanna afhjúpaðir og hver veit nema fullorðna fólkið fái að taka virkan þátt í frumsömdu leikriti barnanna um náungakærleikann.