Gamlárskvöld 2017Kópavogskirkja
Matt.28 16-18
Fortíð mína fel ég miskunn þinni, nútíðina elsku þinni, framtíðina forsjá þinni, frelsari minn og Drottinn. Amen
Ég las niðurlag Matteusarguðspjalls þar sem er sagt frá því þegar Jesús kom til lærisveina sinna og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu .. Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Þú kannast við þessi orð, þau eru rifjuð upp við hverja skírn. Hann sem fæddist í fjárhúsinu í Betlehem og dó á krossi í Jerúsalem, reis upp frá dauðum og sagði þetta við ráðvillta vini sína. Ætla mætti að þeir hafi verið undrandi á þessari yfirlýsingu, enda sumir í vafa, segir guðspjallið. En hann sendi þá út í heiminn til að kenna og skíra og vita að hann verði með þeim alla daga, allt til enda veraldarinnar. Þess vegna erum við hér og fáum að mæta áramótum í birtu hans. „Til enda veraldar“ getur merkt til allra heimshorna, um alla heimskringluna, á heimsenda – eða jafnvel „út fyrir endimörk alheimsins!“ Eða allt til þess að veröldin hefur runnið sitt skeið á enda. Það er sú tilfinning, sem gjarna sest að á áramótum, enn eitt ár hverfur í aldanna skaut og styttist það sem eftir er. Og við höfum ekkert vald, enga stjórn á því. Oft upplifir maður einmitt „enda veraldar“- heimsenda – það sem ógnar tilveru manns, lokar leiðum, tekur af manni völdin.
Allt vald er mér gefið, segir Jesús, hinn krossfesti og upprisni. Þetta vald birtist í vanmætti og varnaleysi barnsins í Betlehem, bróðurins við Galíleuvatn, biðjandans í Getsemane, bandingjans á Golgata.Og það vald mun sigra. Það ryðst samt ekki inn á neinn, brýst ekki í gegn um hindranir manns og fyrirvara. Menn verða að ljúka upp fyrir orði hans og anda. Allt vald segir Jesús- allt megnar hann nema eitt, hann megnar ekki að þvinga þann sem vill ekki ljúka upp fyrir honum. Af því að hann er kærleikur og kærleikurinn megnar allt, nema að þvinga.
Í trausti til orða hans kemur kristið fólk saman fyrsta dag hverrar viku árið um kring til að eflast í von og trú, signa sig og heiminn krossins merki. Þess vegna bera kristnir foreldrar börn sín til skírnar til að fela þau á hendur því valdi sem sigra mun allt um síðir, valdi ljóss og friðar.
Nú þykir víst ófínt að bera börn til skírnar. Barnið á að fá að ráða sjálft. Með sömu rökum ættum við að forðast að kenna barni móðurmál. Leyfa því að ráða þegar það hefur aldur og þroska til. Við vitum samt að það gengur ekki. Án móðurmáls, án grundvallar, án fótfestu í móðurmáli, mun barnið seint ná að þroska hugsun og mál til að geta tjáð sig á skapandi hátt í síbreytilegum aðstæðum. Sama á við um trúna. Bænin og barnatrúin myndar grundvöll að andlegum og trúarlegum þroska, Biblíusögurnar, hefðirnar og sálmarnir, mynda grunn til að standa á til að mæta því óvænta, óvissa, óttalega tilverunnar, og tengja við uppsprettu kærleika og vonar.
Sem ungur skólastrákur var ég í garðavinnu hér í lóðunum hér í nágrenni við nýreista Kópavogskirkju. Það var roskinn kennari sem var verkstjóri. Hann vitnaði án afláts í Halldór Laxness og Þórberg, kunni heilu einræðurnar úr bókum þeirra. Umfram allt þar sem var gert lítið úr trúnni, hann vissi hverra manna ég var. Og nýja kirkjan hér fyrir ofan. „Fyrir þær örfáu, fávísu hræður sem enn trúa,“ sagði hann í hneykslunartóni. Þetta var auðvitað ekkert annað en einelti, en það orð var víst ekki til á þeim tímum. Honum fannst þetta græskulaus stríðni, en líka hugsjón. En svona hefur þetta verið löngum, og er enn. Óþol gegn trú og kirkjuAndspyrna gegn Guði. Þarna var samt hugmyndafræðin á hreinu. Hann vitnaði í Karl Marx sáluga, sem sagði að trúarbrögðin væru ópíum fólksins. Til að opna augu fólks fyrir aðstæðum sínum væri nauðsynlegt að útrýma trúnni. Þá fyrst myndi fólk fá kraft til að rísa gegn aðstæðum sínum. Þessari uppskrift fylgdi svo Lenín af mikilli einurð og hvatti til þess að öllum kirkjum yrði eytt og allir prestar drepnir.Stalín fylgdi því eftir af öllu afli. Það má hafa þetta í huga nú þegar minnst hefur verið aldarafmælis rússnesku byltingarinnar. Þar var hart gengið fram í að uppræta trúarhætti og hefðir með öllu, í nafni vísindalegs sósíalisma.
Marx hafði vafalaust rétt fyrir sér að því leyti að oft hefur trúin verið misnotuð í þágu valdsins, kúgunartæki í höndum spilltra manna. Deyfilyf, svæfill samviskunnar. Ó, jú, satt er það. Trú er jú eitthvert máttugasta reginafl mannssálarinnar og sem auðvelt er að afbaka, misnota og virkja til ills. En í höndum Krists, nærð af orði hans, bæn og anda, þá er hún samt siguraflið í hverri raun og vanda, ótta og vá.
Hugmyndafræðin um að alræði öreiganna skyldi innleiða hið fullkomna samfélag á jörðu var ekkert nema trúarbrögð og sem leiddi til ólýsanlegra hörmunga. Sama er að segja um hugmyndir Hitlers um yfirburði þýsks þjóðernis og menningar. Úr þessum hugmyndum voru smíðaðar djöfullegar drápsvélar sem tortímdu milljónum með kerfisbundnum hætti í nafni framtíðarlandsins. Virkustu mannhatursmaskínur og drápsvélar allra tíma voru hin guðlausu ríki 20. aldarinnar, Sovétríkin, Þýskaland nasismans og Kína. Nú í dag heldur Norður Kórea uppi merki hins guðlausa samfélags, og síst er mannúðinni fyrir að fara þar. Skyldi vera samhengi á milli guðleysisstefnunnar, hatursins á kristindóminum og grimmdarinnar og mannfyrirlitningarinnar sem þessar helstefnur ólu af sér? Alla vega ættum við að gefa því gaum hvað gerist þegar Jesú Kristi er rýmt út úr lífi einstaklinga og samfélags – eins og virðist keppikefli svo margra sem ráða uppeldi og skoðanamótun á Íslandi í dag. Við verðum vitni að útbreiddri trúarfælni og gengdarlaust er blásið að glæðum andúðar á kirkju og kristni. Hvað býr þar að baki? Sannleiksást? Réttlætiskennd? Frelsishugsjón? Draumurinn um hið guðlausa samfélag – eða bara geðvonska?
Prestur nokkur sagði frá því að hann var í leigubíl í London, bílstjórinn, múslimi var ómyrkur í máli um ástandið á Vesturlöndum: „Þið hafið glatað ykkar andlega grundvelli. Kirkjurnar ykkar eru tómar. Þið eruð hræddir við andlegan grundvöll okkar, vegna þess að þið gerið ykkur grein fyrir því hve sterkur hann er.“
Höfum við í alvöru glatað okkar andlega grundvelli?
Á það við um Ísland í dag, um þessi áramót? Og hvernig gætum við þá endurheimt hann?
Hver er okkar andlegi grundvöllur? Á hverju stöndum við, hvar staðsetjum við okkur þegar áföllin dynja yfir, þegar fótfestan svíkur?
En eru ekki brestir í þessum grunni? Er Kristur ekki stöðugt á undanhaldi? Leigubílstjórinn hafði rétt fyrir sér í því að við höfum vanrækt hinn andlega grundvöll, andlegar rætur og uppsprettu, hefðir sem mótað hafa siðmenningu sem lagði til viðmið frelsis og mannúðar. Þegar stöðugt er grafið undan þeim grunni, þegar þeim brunnum er markvisst lokað, skorið er á þær rætur, bænaljósin kæfð, hvað tekur þá við? Þegar hið trúarlega er gegndarlaust niðrað og nítt í nafni frelsisins, og hefðir og helgi kristninnar jaðarsett. Hvað tekur þá við? Manni virðist sem svo margt í uppeldi nútímans miðist við að uppfylla þarfir barnanna, án þess að kenna þeim að bera umhyggju fyrir öðrum. Orð Jesú að sælla sé að gefa en þiggja, gleymast gjarna.Hefur það aukið á hamingju og gleði að gleyma því? Hefur markaðshyggjan náð betri árangri í að tryggja gott mannlíf og heilbrigði sálar og anda? Hefur það aukið á andlega vellíðan unga fólksins að innræta því tortryggni gegn trú og trúariðkun, kristnum sið, eins og markvisst er gert.
Viðhorfskannanir í Evrópu sýna fram á að aldrei hafi fleira ungt fólk sagst vera trúlaust. Og meiri hlutinn segist vera án vonar um framtíð. Vonleysi og andleg vanlíðan hrekur ungt fólk inn á flóttaleiðir vímuefnanna, eða í fangið á pólitískum og trúarlegum ofstækismönnum og hugmyndakerfum. Það er grafalvarlegt.
Við erum einatt völt og reikul, með hik okkar og efa og hálfvolga skoðun, ótta og kvíða. En grunnurinn sem er Jesús Kristur bifast ekki né svíkur, viljinn góði, valdið milda bregst ekki. Bænin, sem er að grípa í þá huldu hönd sem hjálpar og huggar. Munum líka að það er betra að standa valtur á öruggum grunni en öruggur á völtum grunni.
Hvernig endurheimtum við hinn andlega grundvöll? Með því að rækja hinar kristnu hefðir og helgidóma, bæn og guðsþjónustu. Við saman og hvert og eitt. Að skýla bænarloganum smáa og blaktandi trúarljósinu. –
Þá fylgir trúarvissan í kjölfarið. Þannig er það og verður.
Saga er sögð af gömlum presti sem sagði: Þegar ég var ungur dreymdi mig um að breyta heiminum. Þegar ég varð eldri sá ég að það var mér ofviða svo ég ákvað að breyta landinu mínu. Þegar frá leið sá ég að það var líka of mikið, svo ég vildi leggja mig fram um breyta borginni minni. Brátt sá ég að ég réði ekki við það svo ég bað þess að geta breytt fjölskyldu minni. Nú bið ég þess eins að ég geti breytt sjálfum mér.“
Já, ætli margur gæti ekki haft sömu sögu að segja? Sannleikurinn er sá að heimurinn lætur ekki breyta sér, ekki borgin, ekki pólitíkin, ekki okkar nánustu, enginn er þess umkominn að breyta öðrum, af því að við erum syndarar. Öll með tölu. Samt er alltaf verið að leita að hinum fullkomna leiðtoga og stóru hugsjón eða nýju tækni sem breyti heiminum. Nei, heimurinn lætur ekki breyta sér. Við erum öll syndarar. Sá sem í raun og veru glímir við sjálfan sig, fíkn sína, hneigðir gerir sér grein fyrir því. Þar þarf æðri mátt til. Það er Guð. Guð sem Jesús birtir, barnið í Betlehem, hinn krossfesti frelsari; Guð sem Jesús nefnir föður og segir að við megum ávarpa sem föður okkar,sem börn Guðs sem hann elskar, fyrirgefur, huggar, reisir upp.
Allt vald er mér gefið, segir Jesús. Hann segir líka: Ég er ljós heimsins. Ég er ljós lífsins. Sérhvert jólaljós bendir á hann, hóglátt og hávaðalaust bendir það á valdið æðsta í veröld hér. „Enn bregður Drottins birtu á byggðir sérhvers lands, því líkn Guðs eilíf lifir…“ var sungið hér áðan. Skáldið Sigurður Pálsson,sem lést á þessu ári, blessuð sé minning hans, orti:
Máttvana máttuga
ljós á kerti
lýsir betur en megatonn
Ósýnilegt vald þitt tryllir
magnhyggjumenn
ofbeldisdýrkendur
valdrembur
Þeir geta ekki
á heilum sér tekið
vald þitt er ósýnilegt
Litla, stóra kerti
á borði í anda
í minni í hjarta
á altari austurfjallanna
Viltu lýsa okkur áfram
skildu okkur ekki eftir
lýstu okkur áfram
Hans er allt vald á himni og á jörðu, tíma og eilífð og hann er með okkur alla daga, allt til enda veraldar.
Takk fyrir árið sem er að líða. Guð gefi þér gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni.