Fyrir nokkru var tekin í notkun ný útilýsing Kópavogskirkju. Ljósaútbúnaður gömlu lýsingarinnar var farinn að gefa sig og ákveðið var að endurnýja hann. Til verksins voru fengnir þeir Bjarnþór Sigvarður Harðarson sem hannaði lýsinguna og Lárus Eiríksson, rafverktaki, tók að sér að setja upp ljósin ásamt samstarfsfólki sínu.
Kveikt var á nýju útilýsingunni að kvöldi hins 8. apríl. Það var fulltrúi eldra fólksins, Auður Helga Jónsdóttir, 100 ára gömul, og fulltrúi yngri kynslóðarinnar, Jón Gauti Guðmundsson, nýfermdur, sem tendruðu í sameiningu á nýju lýsingunni. Það var falleg og táknræn athöfn þegar fingur tveggja kynslóða þrýstu saman á rofann og mjúkt ljósið umvafði skyndilega alla kirkjuna að utan.
Athöfninni stjórnaði sóknarpresturinn sr. Sigurður Arnarson. Meðal viðstaddra voru biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir og bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson; Ásta Ágústsdóttir, djákni við kirkjuna og sr. Gísli Jónasson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra.
Kópavogskirkja er elsta kirkja Kópavogsbæjar og var reist á árunum 1958-1962. Hún er helsta kennileiti bæjarins og er hluti af bæjarmerki Kópavogs. Kirkjuna prýða steindir gluggar eftir Gerði Helgadóttur og altaristafla sem er eftir Steinunni Þórarinsdóttur. Kópavogskirkja er krosskirkja og mjúkir bogar hennar njóta sín einkar vel þegar hún er upplýst.
Kirkjur víða um land eru margar hverjar upplýstar og verða fyrir vikið enn meiri sveitar- og bæjarprýði en ella.