Æskulýðsfundir

Æskulýðsfundir eru á fimmtudagskvöldum kl. 20:00-21:30 í safnaðarheimilinu Borgum.

Mál dagsins

Mál dagsins verður þriðjudaginn 21. janúar kl. 14:30-16:00 og hefst að venju með samsöng til kl. 15:10 undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Mátéová. Kl. 15:10 mun Finnur Fróðason flytja erindi. Kl.15:30 er drukkið kaffi og með því. Stundinni lýkur með bæn og blessun kl.16:00.

Guðsþjónusta 19. janúar

Guðsþjónusta verður 19. janúar kl. 11:00. Sr. Sighvatur Karlsson, settur héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari. Félagar úr Kór Kópavogskirkju syngja undir stjórn Lenku Mátéová. Sunnudagaskólinn á sama tíma í safnaðarheimilinu Borgum.

Mál dagsins


Mál dagsins hefst aftur efir jólafrí þriðjudaginn 14.januar í safnaðarheimilinu Borgum kl.14.30 með samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenka Mátéová. Klukkan 15.10 heldur dr. Bergrún Óladóttir, jarðfræðingur erindi. Kl. 15.30 er drukkið kaffi og stundinni lýkur með bæn og blessun kl.16.00. Allir hjartanlega velkomnir.

Mál dagsins

Mál dagsins hefst aftur eftir jólafrí þriðjudaginn 14. janúar kl.14:30-16:00.

Sunnudagaskólinn hefst aftur sunnudaginn 12. janúar

Sunnudagaskólinn hefst aftur eftir jólafrí sunnudaginn 12. janúar n.k. kl. 11:00 í Safnaðarheimilinu Borgum. Allir hjartanlega velkomnir.

Guðsþjónusta 12. janúar kl. 11:00

Guðsþjónusta verður sunnudaginn 12. janúar n.k. kl. 11:00. Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari. Félagar úr Kór Kópavogskirkju syngja undir stjórn Lenku Mátéová. Sunnudagaskólinn hefst sama dag og á sama tíma í safnaðarheimilinu Borgum.

Prédikun dr. Karls Sigurbjörnssonar í hátíðarguðsþjónustu á gamlársdag í Kópavogskirkju

Gamlárskvöld 2019

Jes. 43.1 – 3

Guðspjall: Lúkas 2. 25-32

Ég bið með orðum Dag Hammarskjöld: Guð. Fyrir allt sem var: Takk. Við öllu sem verður: JÁ. Amen

      Náð sé með yður og friður frá honum sem er, var og kemur, hinum alvalda. Amen. 

Í ljóðabókinni, Af ljóði ertu kominn, yrkir skáldkonan Steinunn Sigurðardóttir, og þetta hefur leitað á mig nú við lok ársins:

         Af því að ekkert gerist um leið og það gerist,

er lífið samsett úr andartökum sem við missum af.

Stóru stundirnar verða ekki stórar fyrr en

  í Endurminningunni.

Við vitum ekki hvernig þær voru í rauninni rétt á meðan þær liðu hjá.

Og síðasta andartakið hefur Síðasta Orðið.

Um þá Stóru Stund verður engin minning,

Aðeins Ekkert.    

Við áramót finnst okkur við standa á þröskuldi hins óþekkta. Fáum er gefinn sá trúarstyrkur og æðruleysi sem bar uppi bæn Dag Hammaskjöld, að geta þakkað allt sem var og játast öllu sem verður. Það er aðeins unnt í birtunni frá Betlehem, í ljósi Jesú Krists. Það laugar og signir hið liðna og bjarmar fyrir sálarsjónum, ljósið sem um síðir mun lýsa og ríkja. Guði sé lof fyrir að fá að kveðja ár og fagna nýju í þeirri birtu. 

Á áramótum leitar Endurminningin á. Stóru stundirnar og hversdagsatvik, gæfustundir og auðnubrigði. Dýrmætust eru andlit þeirra sem við unnum og dauðinn tók sem nú koma fyrir hugarsjónir, og sem Endurminningin merlar mánasilfri saknaðar og þakklætis. Allt er geymt í huga Guðs. Og eins andlit þeirra sem heilsuðu þessum heimi á árinu og færðu birtu og blessun inn í líf okkar, andlit þeirra sem eru ekkert nema framtíð. Jafnframt því sem við dveljum við þessi andlit, þeirra sem eru fortíð og þeirra sem eru ekkert nema framtíð þá skulum við í huganum leita eftir andlitum þeirra sem nú eru á meðal okkar, snerta líf og tilveru okkar frá degi til dags og við réttum hugi og hjörtu og hendur okkar til þeirra í umhyggju, kærleika og þakklæti, fyrirgefningu og fyrirbæn. 

    Af því að ekkert gerist um leið og það gerist,

er lífið samsett úr andartökum sem við missum af.

Stóru stundirnar verða ekki stórar fyrr en

  í Endurminningunni,

fullyrðir skáldkonan, það er satt, hin líðandi stund hverfur svo skjótt hjá, við tökum varla eftir því fyrr en við lítum um öxl í skuggsjá Endurminningarinnar. Núvitund er eitt af tískuorðum dagsins. Það er full ástæða til að skerpa athyglina á þeirri stund sem er, vera vakandi, athugull, íhugull í núinu. Það er eitt megináhersluatriði trúar okkar að vaka. „Vakið og biðjið!“ segir Jesús. „Nú er hagkvæm tíð,“ segir postulinn. Nú. Núna. Og um sjálfan sig segir Drottinn: „Ég ER.“ Ekki: Ég var eða: Ég verð, heldur: ÉG ER. Og um leið segir hann við mig og þig: Þú ert minn! Þú ert mín!

Senn er árið 2019 liðið í aldanna skaut.  

En hvað tekur við? 

Það tilheyrir æskunni að maður vill alltaf að eitthvað gerist. Svo kemur að því einhvern tíma á ævileið að maður vonar helst að ekkert gerist. Ég er löngu kominn á það stig og er því ekki ungur lengur, það stig þegar manni finnst að engar fréttir séu góðar fréttir og vill helst að allt sé í sínum föstu, skorðum. En því er ekki að heilsa. Lífið rekur mann áfram undir lögmáli tímans. Undan því verður ekki vikist.

„Og síðasta andartakið hefur Síðasta Orðið.

Um þá Stóru Stund verður engin minning,

Aðeins Ekkert.“    

segir skáldkonan. 

Aðeins Ekkert

Þar fangar hún orð og veruleika sem er ágengur í samtíðinni sem er tómhyggjan, nihilisminn, orðið nihil merkir Ekkert.

     Það birtist reyndar mynd af því nú á árinu sem er að líða. Svartholið náðist á mynd. Eyðingaraflið sjálft sem dregur allt til sín í myrkradjúpin sín, og er Ekkert.  Við viljum ekki tilheyra því!

Þá kemur mér í hug einn þátturinn í sjónvarpsþáttaröðinni, The Crown, sem nú er sýnd á efnisveitunni, Netflix. Það er þáttur þar sem gefst fágæt innsýn í sannleiksleit manns sem átti allt. Það er Filippus prins, eiginmaður Englandsdrottningar, auðugustu konu heimsins. Hann bjó í 100 herbergja höll, með tólf aðrar hallir til ráðstöfunar, þjóna á hverjum fingri og ótakmarkaðan auð, allt til alls. En óhamingjusamur, einmana, þrúgaður af tilgangsleysi þessa lífs.  

Þátturinn gerist sumarið 1969 – fyrir réttum fimmtíu árum. Við munum mörg þá stóru stund þegar tunglfararnir Neil Armstrong, Buzz Aldrin og Michael Collinslentu á tunglinu. Hún er sannarlega stór í endurminningunni hjá mörgum okkar. En í þessum sjónvarpsþætti er fjallað um hve prinsinn var gersamlega heillaður af þessu stórkostlega afreki, þessum sigri mannvits og tækni.   Þegar geimförunum var svo boðið í opinbera heimsókn í Buckinghamhöll þráði prinsinn heitt að eiga með þeim einkasamtal. Svo situr hann þarna augliti til auglitis við þessa þrjá menn sem höfðu unnið þetta einstæða afrek og iðar í skinninu að fá þá til að lýsa þeim hughrifum og andlegu upplifunum sem þeir urðu fyrir. Hann þráði svör sem vísuðu til andlegrar reynslu og vídda. Þess í stað eru þarna þrír venjulegir ungir flugmenn, aukinheldur rótkvefaðir og höfðu ekkert að segja. Hvernig var það þegar þið stiguð fyrst á Tunglið? Var það ekki áhrifaríkt? spurði prinsinn, ákafur. Nei, sögðu þeir, bara sandur og auðn. Ekkert.Þetta var ekki svarið sem hann vildi fá. 

Síðar játaði prinsinn fyrir prestinum sínum: Móðir mín sagði rétt áður en hún dó að það væri eitt sem mig skorti. Og ég hváði: Hvað? Trú,svaraði hún.

Tungförunum fannst lítið til Tunglsins koma en þeim mun meira til Jarðarinnar. Bláa hnattarins sem flaut þarna í biksvörtu djúpi, blár, silfri drifinn. Það var áhrifarík sjón. Ég man það vel þegar ég sá í National Geographic litmynd af Jörðinni okkar, utan úr geimnum séð. 

Margir urðu til að lýsa því þessa júlídaga árið 1969 hve áhrifamikil sú mynd væri. Nú myndi mannkynið loksins sjá hve Jörðin okkar er lítil, þessi örsmái hnöttur í víðerni geimanna. Það myndi vekja með mönnum samkennd og frið. Það hefur því miður látið á sér standa að sá sannleikur yrði mönnum hugleikinn svona almennt, hvað þá að það virki vilja og verk til góðs fyrir lífið, jörðina, náungann. Það þarf annað og meira að koma til. Hvað? 

Mörgum árum eftir Tunglförina sagði Neil Armstrong frá því er hann kom til Ísraels og gekk þar um fornar götur og spurði leiðsögumanninn: Er mögulegt að Jesús hafi gengið á þessum gangstéttarhellum? Jú, tímans vegna gæti það alveg verið, svaraði leiðsögumaðurinn. Armstrong sagði svo frá: Það var mér dýpri og magnaðri reynsla að ganga á þessum fornu götusteinum en á tunglinu.  

  Hver var þessi Jesús sem forðum gekk um rykuga vegi og steinlögð stræti Landsins helga? Hver er hann? Hann er Orðið sem varð maður á jörðu og mun hafa síðasta Orðið. Guð valdi að vitja mannsins hér á Jörð, helga jörðina himni sínum, okkar vegi, okkar líf, eilífð sinni. 

„Hvernig var Tunglið?“ spurði prinsinn. „Ekkert.“ 

AðeinsEkkert– segir skáldkonan um það sem við tekur.  

Tómhyggjan sér aðeins Ekkertvið leiðarlok. Það er eitt mein okkar daga. Við þörfnumst trúar. Trúar á Guð. 

Það var ekki minnst á Jesú eða jólaguðspjallið í Stundinni okkar í sjónvarpinu, RÚV, á jóladag. Hið trúarlega þykir ekki við hæfi. Hvað veldur? Þegar hinu trúarlega er útrýmt úr skólum og uppeldi þá er verið að loka á einhvern allra mikilvægasta þátt mennskunnar. Helgimyndir og trúartákn mega ekki sjást á Fæðingadeild Landspítalans, – það er svo trúarlegt, var sagt, og helgimynd af Guðsmóður með Jesúbarnið var tekin niður og stungið inn í geymslu.   

Þetta var líka yfirlýst viðhorf í Sovétríkjunum sálugu sem stóðu á hátindi valds síns fyrir fimmtíu árum. Sömu sögu er að segja af flestum múslimaríkjum í dag. Og í Kína um þessar mundir. Þar mega kristnar helgimyndir ekki sjást og krossar eru brotnir niður af kirkjum. Því að þótt menn ráði þar yfir öflugustu tækni og máttugustu kjarnorkuvopnum veraldar þá gera menn sér grein fyrir afli hinna helgu tákna og kristins siðar, hræðast það og vilja það feigt.  

     Afl og máttur hins heilaga lætur ekki að sér hæða. Í trúnni á þann Guð sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi er fólgið afl ummyndunar og lækningar, aflvaki og orkulind mannúðar, mildi og miskunnsemi, hugrekkis, lífs og vonar.  Sú trú er siguraflið sem mun sigra heiminn, lækna líf og heim, undir jarðar og meinin manna. Eins og skáldið Jón Trausti segir í Sögum úr Skaftáreldum: „Trúin er Guðs gjöf… Hún er máttur Guðs í vanmætti manna. Án hennar eru mennirnir rótlausir, flögrandi og fjúkandi laufblöð fyrir hverjum vindi, dæmdir til tímanlegs og andlegs dauða. Trúin er sigur yfir dauðanum. Hún er sigur lífsins.” 

 Þetta vissi móðir prinsins, prinsessan sem varð nunna og 

helgaði líf sitt hjálp við hina snauðu og hrjáðu. Hún horfði á son sinn, ráðvilltan, lífsleiðan í öllum alsnægtunum og sagði við hann: Þig vantar eitt.  Trú. 

      Hún vissi og það megum við líka vita að öll ofgnótt og auður veraldar, allir sigrar tækni og vísinda munu aldrei svala hjarta mannsins. Guði sé lof fyrir tækni og vísindi, vit og visku manna sem beitt er til að lækna mein og efla lífið!  En það mun ekki svala hjarta mannsins. Af því að það er skapað af Orðinu eilífa sem í öndverðu skóp ljós og líf og mun hafa síðasta orðið yfir lífi manns og heims. Það er Orðið sem varð hold, maður á jörðu, bróðir þinn, Jesús. Öll þrá og löngun jarðar barna er andsvar við ávarpi hans. Og hann lagði okkur orð á varir og hjörtu til að orða andvörp okkar og innstu þrá, von og vonbrigði: Faðir vor. Þannig skuluð þið biðja, segir hann, eins og barn við föðurkné eða í móðurfaðmi, hvað sem að höndum ber. Það er TRÚ. Kristur helgaði þetta líf og þennan heim, þetta varnalausa mannlíf himninum sínum, sem er ekkiauðn og tóm, Ekkert,heldur ljós og eilíft líf. Og það er ÞAÐ sem á móti kemur. Sérhvert skref og hver ein stund færir okkur nær honum, ljósinu hans, lífinu hans, líkn og lækning. Að játast því, það er TRÚ. 

Hann er bæði í fortíð og framtíð. „Hann sem er og var og kemur“. Hann var hjá þér í móðurlífi og nú er þú biður til hans. Og hann er líka í því sem ókomið er. Það er ekki Ekkert sem við tekur. Nei, síðasta andartakið er Orðið sem segir við mig og þig og sérhvert jarðarbarn: Þú ert minn. Óttastu ekki. Trúðu aðeins. Fylg þú mér. Hann blessi árið sem senn er horfið í aldanna skaut. Hann blessi árið sem á móti kemur og allt sem það færir að höndum. Ljós Guðs og andi leiði okkur öll og blessi og gefi gleðilegt ár. 

Guðsþjónusta 12. janúar, kl.. 11:00

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 12. janúar kl. 11:00. Sr. Sigurður Arnarson prédikar og þjónar fyrir altari. Félagar úr Kór Kópavogskirkju syngja undir stjórn Lenku Mátéová. Sunnudagaskólinn hefst aftur eftir jólafrí.

Helgihald í Kópavogskirkju um jól og áramót.

24. desember, Aðfangadagur – kl15:00.  Beðið eftir jólunum.  Fjölskylduhelgistund.  Stór hópur barna úr Skólakór Kársnes syngur undir stjórn Þóru Marteinsdóttur.

Kl. 17.30 Lenka Mátéová, orgel, Katrin Heymann, flauta og Össur Ingi Jónsson, óbó flytja hátíðartónlist

KL 18:00 Aftansöngur á Aðfangadag. Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar flutt. 

25. desember. Jóladagur.  Kl. 14:00.  Hátíðarguðsþjónusta.  Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar flutt. Ásta Ágústsdóttir, djákni prédikar.

25. desember. Jóladagur. Kl 15:15.  Hátíðarguðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Ásta Ágústsdóttir, djákni prédikar.

31. desember. Gamlársdagur. Kl. 18:00.  Aftansöngur.  Dr. Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar og þjónar fyrir altari. Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar flutt.  

1. janúar.  Nýjársdagur. Kl. 14:00.  Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir, settur héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari. Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Sóknarprestur, prédikar og þjónar í guðsþjónustum nema annað sé tekið fram. Kór Kópavogskirkju syngur í öllum guðsþjónustum undir stjórn Lenku Mátéová nema annað sé tekið fram. Nánar á www.kopavogskirkja.is