Fjársöfnun – Kópavogskirkja lýst að utan.

lof-2981Listaverki Doddu Maggýjar verður varpað á Kópavogskirkju frá kl. 18:30 til miðnættis á Safnanótt í Kópavogi 3. febrúar nk. Stundin markar upphaf söfnunarátaks kirkjunnar en safnað er fyrir viðgerðum á þakdúkum, rafkerfum, lýsingu og steindum gluggum eftir Gerði Helgadóttur. Eftir að kveikt verður á verkinu verður friðarstund inni í kirkjunni. Tónlistarhópurinn Umbra og Lenka Matéova organisti flytja tónlist og sýndir verða safnmunir kirkjunnar. Allir eru velkomnir. Á Safnanótt er einnig fjöldi list- og menningarviðburða í Menningarhúsum Kópavogsbæjar.

Ljósverkið er fjármagnað úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar og er hluti af Safnanótt í Kópavogi. Með verkinu er þó jafnframt verið að vekja athygli á söfnunarátaki kirkjunnar og steindum gluggum Gerðar sem liggja undir skemmtum. Verkið vísar í gluggana. Kópavogskirkja er tákn bæjarins og teygir sig yfir Menningarhús þess svo sem Gerðarsafn, sem reist var til minningar um Gerði Helgadóttur.

Með söfnunarátaki er vonast til að hægt verði að koma í veg fyrir að menningarverðmæti skemmist.

Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju, segir að kostnaðaráætlun viðgerðanna liggi ekki nákvæmlega fyrir en áætlað er að kostnaður sé í kringum 20 milljónir. Kársnessöfnuður geti ekki staðið straum af viðgerðunum nema með góðri hjálp. Á síðustu misserum var ytri byrði kirkjunnar tekin í gegn og kirkjan máluð að utan. Ungur aðdáandi kirkjunnar sagði þá í hrifningu: „Hún er orðin falleg aftur.”

Ljósaverkefnið og dagskráin í kirkjunni er unnin í samstarfi Sigurðar, samstarfsmanna, sóknarnefndar Kópavogskirkju og starfsmanna Menningarhúsa Kópavogsbæjar. Dagskrá Safnanætur í Kópavogi hefst kl. 18.00 og er hægt að kynna sér hana nánar á vef Kópavogsbæjar.

Kópavogskirkja var reist á árunum 1958-1962 eftir teikningum frá embætti húsameistara ríkisins sem Hörður Bjarnason veitti forstöðu á þeim tíma. Ragnar Emilsson arkitekt hjá embættinu vann ásamt húsameistara mjög mikið að teikningu kirkjunnar. Grunnur kirkjunnar var helgaður þann 16. ágúst árið 1958 og hornsteinn lagður af biskupi Íslands þann 20. nóvember árið eftir. Það var svo þann 16. desember árið 1962 sem kirkjan var vígð af Sigurbirni Einarssyni þáverandi biskupi Íslands.

Kópavogskirkja er krosskirkja og að því leyti er hún hefðbundin en bogar hennar, sem svo mjög einkenna hana, gera hana sérstaka og gefa henni í senn bæði tignarlegt og mjúkt yfirbragð. Kirkjan þykir fögur og góður vitnisburður um þá sem að unnu og verðug umgjörð um helgihald og tilbeiðslu.

Inni í kirkjunni er altaristafla eftir Steinunni Þórarinsdóttur og skírnarfontur og skildir á prédikunarstóli eftir Barböru Árnason. Þessi þrjú höfuðlistaverk kirkjunnar, gluggarnir, altaristaflan og skírnarfontur, eru því eftir konur. Í eigu kirkjunnar er einnig forgöngukross og forgöngukertastjakar eftir Evu Björnsdóttur, gullsmið og Kristsmynd í anddyri eftir Benedikt Gunnarsson.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á söfnunarreikning kirkjunnar: 0536-26-630000, kt. 6912720529.

Ábyrgðarmaður söfnunarinnar er: Sóknarnefnd Kópavogskirkju.

Messa 29. janúar n.k. kl. 11:00

Messa verður sunnudaginn 29. janúar kl. 11:00.  Til messunnar eru sérstaklega boðuð fermingarbörn vorsins og foreldrar þeirra.  Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari ásamt Ástu Ágústsdóttur, djákna.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Eftir messu verður fundur með fermingarbörnum vorsins og foreldrum þeirra í kirkjunni.  Allir hjartanlega velkomnir.

Mál dagsins 24. janúar

Mál dagsins verður 24. janúar og hefst að venju með samsöng kl. 14:30 undir stjórn Lenku Mátéová og Friðriks Kristinssonar.  Kl. 15:10 heldur Orri Hauksson erindi.  Um kl. 15:30 verður drukkið kaffið og stundinni lýkur með bæn og blessun rétt fyrir kl.16:00.  Allir hjartanlega velkomnir.

Guðsþjónusta 22. janúar n.k.

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 22. janúar kl. 11:00.  Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Kærleikssmiðja á sama tíma í safnaðarheimilinu Borgum.

Fyrirbænastundir

Fyrirbænastundir eru á þriðjudögum kl. 12:10 í Kópavogskirkju.  Hægt er að koma fyrirbænaefnum til sóknarprests eða djákna.  Léttur hádegisverður er í boði að stundunum loknum í safnaðarheimilinu Borgum.

Fermingarnámskeið

Sameiginlegt fermingarnámskeið fyrir hópinn, sem fermist í vor í Kópavogskirkju verður miðvikudaginn 18. janúar frá kl. 9:30 – 12:30 í safnaðarheimilinu Borgum.

Mál dagsins

Mál dagsins hefur aftur göngu sína eftir jólafrí þriðjudaginn 17. janúar kl. 14:30.  Stundin hefst með samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Mátéova.  Um kl. 15:10 flytur Margrét Örnólfsdóttir erindi um starf sitt, sem handritshöfundur.  Meðal annars: segir Margrét frá vinnu sinni við þáttaröðina „Fangar“, sem sýnd er í sjónvarpinu þessar vikurnar.  Drukkið er kaffi kl.15:30 og stundinni lýkur með bæn og blessun kl. 16:00.  Allir hjartanlega velkomnir.

Kona á bæn

Á milli jóla og nýjárs færðu Hertha Wendel og börn Kársnessöfnuði höfðinglega gjöf en það er  styttan“Kona á bæn“ eftir Wilhelm Beckmann.  Nokkur verka Wilhelms eru í eigu safnaðarins og eru til sýnis í andyri safnaðarheimilsins Borga. Styttunni hefur verið komið fyrir utan safnaðarheimilið.  Guðmundur Jóhann Jónsson, formaður Kársnessóknar veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd safnaðarins og færði Herthukona-a-baen-mynd-1 og börnum innilegar þakkir fyrir þessa góðu gjöf.

Næsta guðsþjónusta verður 15. janúar n.k.kl.11:00

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 15. janúar n.k. kl. 11:00.  Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Sunnudagasmiðja fyrir börnin hefst kl. 11:00 í safnaðarheimilinu Borgum.

Bæn dr. Karls Sigurbjörnssonar frá gamlársdegi 2016.

Kirkjubæn

Biðjum saman í Jesú nafni: Eilífi, almáttugi Guð og faðir, þú sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, og af náð þinni gefur okkur dag í senn og andartak í einu. Við þökkum þér árið sem senn er liðið, fyrir gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Kenn oss að telja daga vora að vér getum öðlast viturt hjarta. Við felum þér Ísland og líf þess, byggðir landsins og börn þess öll, samfélag, menningu og tungu og trú, stjórnvöld og áhrifavalda þjóðfélagsins, atvinnulíf og efnahag, alla tímanlega og eilífa farsæld.

Í þínar hendur felum við árið liðna og í trausti til handleiðslu þinnar höldum við inn um dyr hins nýja. Vísa okkur vegu þína, Drottinn, og leið okkur gegnum skammdegi lífsins að við náum því marki sem þú hefur sett jarðlífsgöngu vorri. Heyr þá bæn og allar bænir vorar, óskir og vonir, þarfir og þrár sem við felum miskunn þinni í orðum bænar Drottins: Faðir vor…