Guðsþjónusta 20. nóvember kl. 11:00

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 20. nóvember kl. 11:00.  Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Sunnudagssmiðja fyrir börn á sama tíma í safnaðarheimilinu Borgum.  Allir hjartanlega velkomnir.

Mál dagsins

Næsta Mál dagsins verður þriðjudaginn 15. nóvember n.k. kl. 14:30 og hefst með samsöng undir stjórn; Lenku Mátéová og Friðriks Karlssonar.  Um kl. 15:10 flytur Kristján Schram erindi um hvernig auglýsingar verða til.  Klukkan 15:30 er drukkið kaffi og stundinni lýkur kl. 16:00 með bæn og blessun.  Allir hjartanlega velkomnir.

Fyrirbænastundir á þriðjudögum kl. 12:10 í Kópavogskirkju

Á þriðjudögum kl. 12:10 eru bænastundir í Kópavogskirkju.  Eftir bænastundir er boðið upp á hádegisverð gegn vægu gjaldi.  Þriðjudaginn 8. nóvember var boðið upp á arabískan mat sem hjónin Nazim og Linda frá Sýrlandi bjuggu til ásamt Steinunni Ólafsdóttur, kirkjuverði.  Eldri félagar úr Karlakór Reykjavíkur voru á sama tíma að æfa í safnaðarheimilinu og komu við á leið til kirkju og sungu fyrir viðstadda við mikinn fögnuð.img_4063

Barna- og fjölskylduguðsþjónusta

Barna- og fjölskylduguðsþjónusta verður sunnudaginn 13. nóvember n.k. kl. 11:00.  Skólakór Kárnes syngur undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur.  Allir hjartanlega velkomnir.

Mál dagsins 8. nóvember

Mál dagsins 8. nóvember hefst að venju kl. 14:30 með samsöng undir stjórn Lenku Mátéová og Friðriks Kristinssonar.  Klukkan 15:10-15:30 heldur Gestur Jónsson, hæstarréttarlögmaður erindi.  Kl.15:30 er drukkið kaffi og stundinni lýkur kl. 16:00 með bæn.  Allir hjartanlega velkomnir.

Sunnudagasmiðja

Við erum gríðarlega ánægð með þann áhuga sem skapast hefur í kringum sunnudagssmiðju kirkjunnar en um er að ræða starf sem er frábrugðið hefðbundna sunnudagaskólanum. 
 
Krakkarnir sem mæta í Borgir klukkan 11.00 á sunnudagsmorgnum hafa verið að vinna með ýmis listform, nú síðast leiklist. Þemað í vinnunni er kærleikur og hefur margt fallegt fæðst í þessari yndislegu stund. 
 
Tvo síðustu sunnudaga höfum við búið til sögur saman þar sem hver og einn leggur af mörkum eina setningu til að mynda eina heild. Einu fyrirmælin í sögustundinni er að sagan eigi að snúast um kærleik. Það hefur ekki vafist fyrir krökkunum og hafa þau til dæmis sagt sögu af dreng sem óhlýðnaðist móður sinni, fór einn að ganga út í skógi og hjálpaði litlum kettling og eignaðist úlf að vin. 
 
Síðasta sunnudag kenndum við krökkunum að það væri vel hægt að búa til sínar eigin bænir, en við biðjum alltaf í byrjun og lok smiðjunnar. Krakkarnir bjuggu til alveg hreint yndislega bæn og við stöndumst ekki mátið að sýna ykkur hana: 
 
Góði Guð
Ég vil biðja þig um að blessa þessa sunnudagssmiðju.
Viltu blessa alla sem mér þykir vænt um,
og alla sem eiga bágt. 
Viltu blessa alla sem eru á ferðinni í umferðinn
því það er orðið svo dimmt.
Amen
 
Endilega kíkið við í kærleikssmiðjuna í Borgum klukkan 11.00 á sunnudagsmorgnum.

Guðsþjónusta (allra heilagra messa) 6. nóvember kl. 11:00

 

Sunnudaginn 6. nóvember n.k. verður guðsþjónusta á “Allra heilagra messu” í Kópavogskirkju kl. 11:00.  Þá er þeirra sérstaklega minnst, sem eru látin. Beðið verður með nafni fyrir þeim, sem sóknarprestur Kópavogskirkju hefur jarðsungið  á tímabilinu 20. október 2015- til 20. október 2016 og aðstandendum þeirra er boðið sérstaklega til guðsþjónustunnar.  Sigurður Arnarson, sóknarprestur mun prédika og Ásta Ágústsdóttir, djákni mun einnig þjóna fyrir altari.Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.Sunnudagskólinn með listasmiðjuívafi hefst kl. 11:00 í safnaðarheimilinu Borgum.Flutt verður tónlist í kirkjunni frá kl. 10:30 og þá gefst kostur að tendra á bænaljósi við altari. Eftir guðsþjónustu verður boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu Borgum.  Ásta, djákni mun þá fjalla um sorg og sorgarviðbrögð. Ef tækifæri er til eru þau sem geta beðin um að koma með eitthvað á hádegisverðarhlaðborð í safnaðarheimilinu (opið verður þar frá kl.10:30).Allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar á æskulýðsfundi

Þau Ahmed og Million, sem starfa hjá Lútherska heimssambandinu í Eþjópíu komu í heimsókn á æskulýðsfund nýverið.  Sögðu þau frá vatnsbrunnaverkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþjópíu og fræddu okkur um land og þjóð.  Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum og forsíðumyndin af æskulýðsleiðtogunum að læra eþjópískan dans.fermingarborn-og-heimsokn-fra-ethjopiu1-heimsokn-fra-ethjopiu

Bæn vegna stríðsátaka í Aleppo og beiðni um að kirkjuklukkum verði hringt

Nýverði barst bréf frá biskupi Íslands til presta og formanna sóknarnefnda.  Í bréfinu segir meðal annars: Eins og fréttir herma er saklaust fólk limlest eða lætur lífið í stríðsátökunum í Aleppo í Sýrlandi þessa dagana. Ráðamenn virðast ekki geta fundið lausn til friðar og uppbyggingar. Hugmynd finnska prestsins Teemu Laajasalo í Kallio sókn í lútersku finnsku kirkjunni hefur orðið að veruleika. Honum sveið ástandið eins og okkur öllum og ákvað að klukkum í hans kirkju skyldi hringt daglega kl. 17 frá 12. til 24. október, en 24. október er dagur Sameinuðu þjóðanna.Þessi hugmynd hefur breiðst út og á vefnum http://bellsforaleppo.org/ má sjá að kirkjurnar í Svíþjóð, Bretlandi og víða í Evrópu hafa gert slíkt hið sama. Tilgangurinn er að sýna fólkinu í Aleppo, lífs og liðnu virðingu og samkennd og vekja athygli á ástandinu.Lúterska heimssambandið, sem Þjóðkirkjan er aðili að, vekur athygli á framtakinu og hvetur fleiri kirkjur til að taka þátt. Það getur ekkert réttlætt þjáningar barna og óbreyttra borgara í Aleppo.  Biskup Íslands hvetur presta og sóknarnefndir til að hringja klukkum kirkna frá mánudeginum 24. október kl. 17 í þrjár mínútur og daglega eftir því sem við verður komið til og með 31.október, sem er siðbótardagurinn.Um leið er til þess mælst að beðið verði fyrir fólki og ástandi í Aleppo og endir verði bundinn á þann hrylling er þar á sér stað.

Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð

Nýverið var bókin „Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð“ gefin út af Skálholtsútgáfunni. Í bókmenntaguðsþjónustu sunnudaginn 30. október kl. 11:00 í Kóapvogskirkju mun þýðandi bókarinnar dr. Grétar Halldór Gunnarsson fjalla um bókina í stað prédikunar.  Lesnir verða textar úr bókinni.  Kór Kópavogskirkju mun syngja undir stjórn Lenku Mátéová.  Sr. Sigurður Arnarson þjónar fyrir altari.  Allir hjartanlega velkomnir.