Mál dagsins 23. janúar kl.14:30-16:00

Mál dagsins verður 23. janúar n.k. kl. 14:30-16:00. Stundin hefst að venju með samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Mátóva. Klukkan 15:10-15:30 heldur dr. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Læknadeild Háskóla Ísland eftirfarndi erindi „Ísland (næst)best í heimi? Það er niðurstaðan fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi miðað við önnur kerfi á heimsvísu, skv. hinu virta tímariti Lancet 2017 (http://www.thelancet.com/pdfs/journals/lancet/PIIS0140-6736(17)30818-8.pdf) Klukkan 15:30 er drukkið kaffi og með því og stundinni lýkur kl.16:00 með bæn og blessun. Allir hjartanlega velkomnir.

Mál dagsins

Mál dagsins verður 23. janúar n.k. kl.14:30-16:00. Friðrik Kristinsson og Lenka Mátéová, leiða samsöng. Flutt er erindi kl. 15-:10-15:30. Drukkið er kaffi og með kl.15:30. Stundinni lýkur með bæn og blessun kl.16:00. Allir hjartanlega velkomnir.

Guðsþjónusta 21. janúar n.k.

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 21. janúar n.k. kl.11:00. Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari. Kór Kópavogskirkju undir stjórn Lenku Mátéová. Sunnudagaskólinn á sama tíma í safnaðarheimilinu Borgum.

Mál dagsins hefst aftur eftir jólafrí 16. janúar

Mál dagsins hefst aftur eftir jólafrí 16. janúar kl.14:30 í safnaðarheimilinu Borgum. Að venju hefst stundin á samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Mátéová. Kl.15:10 heldur Ferdinand Jónsson, yfirlæknir erindi. Klukkan 15:30 er drukkið kaffi og með því og stundinni lýkur kl.16:00. Allir hjartanlega velkomnir.

Hugleiðing Helga Ágústssonar, fyrrverandi sendiherra og ráðuneytisstjóra á Nýjarsdegi í Kópavogskirkju

Hugleiðing

 

Góðir kirkjugestir – Gleðilegt ár

 

Við sem erum hérsamankomin lifum í dag enn einn nýársdag. Dag sem í huga okkarer dagur upphafs og birtu,dagur ókomins tíma,dagur samveru með vinum og fjölskyldu og dagur ráðagerða og nýs lífs. Þess ertil að mynda getið í fréttum dagsins ef börn hafa fæðst á nýársnótt. Foreldrarnir fagna fæðingu þeirra og spyrja sig hvernig þau geti gefið nýfæddu barni sínu gott líf.  Og við spyrjum okkur vonandi flest hvernig getum við breytt lífi okkar til hins betra? Hvað er framundan í lífi okkar, hvers óskum við okkur sjálf eða þjóðfélags okkar og jafnvel hins flókna umheims? Hvað ber nýtt ár í skauti sér?Hvað boðar nýárs blessuð sól?

En nýársdagur er líka dagur upprifjunar, við lítum tilbaka, hugsumsem oftar á þessum árstíma til látinna ástvina, söknum þeirra og minnumst með komu að leiðum þeirra. Við hugsum líka um hvað við hefðum getað gert betur á liðnu áriog við ákveðum að bæta okkuralmennt með ýmsum hætti, s.s. að hafa samband við vini og ættingja sem við höfum ekki séð lengi og að sjálfsögðu lofa sum okkar sér að leggja nú af nokkur kíló. Við ætlum almennt sagt að ná tilteknum markmiðum sem hafa verið okkur hugleikin. En við skulum vera minnug þess og jafnvel skrifa það niður hjá okkur,til að minna okkur á, eftir því sem dagarnir líða,að góð hugsun eða hugmynd er andvanda fædd án framkvæmdar.

Nýársdagur er helgidagur og kirkjur landsins fyllast af fólki til guðsþjónustu og að vanda heldur forseti Íslands á nýársdegimóttökur fyrir margvíslegt forystufólk kkar sem starfað hefur í þágu lands og þjóðar.

 

Áhrif kristinnar kirkju hafa ávallt verið mikil á íslenskt þjóðfélag. Siðfræði og gildi kristindómsins á Íslandi hafa í aldanna rás mótað fólk og leiðbeint í baráttunni fyrir lífinu í óblíðri náttúru. Við státum í dag af velferðarþjóðfélagi sem á fáa sína líka í veröldinni. En við vitum samt að í því leynast margir brestir sem við verðum að laga.

Við munum í ár minnast aldarafmælis fullveldis okkar sem við öðluðumst 1918 og við minntumst 500 ára afmælis siðbótar á Íslandi á liðnu ári. Þá voru jafnframt 960 ár liðin frá stofnun fyrsta biskupsstólsins á Íslandi er Ísleifur Gissurarson fyrstur lærður íslenskra manna var skipaður biskup og hóf kennslu í Skálholti. Skólahald var í Skálholti til ársins 1785. Skálholtsskóli og arftakar hans, þ.e. Hólavallaskóli, Bessastaðaskóli, Lærði skólinn og Menntaskólinn í Reykjavík hafa lagtgrundvöll að menntun þjóðarinnar, kristinni menntun, rækt íslenskrar tunguog framförum í þjóðfélagi okkar í gegnum aldir. Í dag þökkum við fyrir hversu vel hefur tekist til að skapa það velferðarþjóðfélag sem við búum við í dag. En heimsins yndi er stutt og valt og það ríður á að búa okkur vel undir framtíðina þar sem menntun okkar, góð eða slæm, mun skera úr um efnahagslega og menningarlega stöðu okkar.

Við spyrjum okkur því í dagspurningarinnarHvert fer þú?Quo Vadis? Þessi vel þekkta spurning er sett fram í 16. kafla Jóhannesarguðspjalls. Hún er sígild og á ætíð erindi við okkur. Þegar við íhugum þessa spurningu í byrjun nýs árs skulum við vera þakklát fyrir þá siðbót semtelja má að hafi orðið með okkur á haustdögum skömmu fyrir kosningar er kenna mátti meiri samkenndar meðal stjórnmálamanna okkar en í nokkurn tíma sem ég man eftir. Siðbót sem gefur okkur von um betri tíma. Vilja til að leggja af gamla ósiði og taka höndum saman um að gera sameiginlegt átak í ýmsum velferðarmálum okkar. Hætta argaþrasi og sundurgerð. Vinna saman innan stjórnar sem utan við að leysa sem flest viðfangsefni okkar. Við vonum og biðjum í dag að vel megi takast.

Geysilegar breytingar hafa átt sér stað  í heiminum á undanförnum árum og sér ekki fyrir endann á þeirri tæknibyltinu sem við nú lifum.

Hugvitið er drifkraftur efnahagsframfara til framtíðar og tæknibyltingin sem nú á sér stað í heiminum leggur okkur ekki síst á herðar að mennta börnin okkar vel. Kennsla í kristinfræði á ekki að vera undanskilin í þeirri menntun.Þegar við nú hyggjumst bæta innviði íslensks þjóðfélags skulum við minnast ljóðs Einars Benediktssonar:

 

Það fagra sem var, skal ei lastað og lýtt,

en lyft upp í framför, hafið og prýtt.

Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja

án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt.

 

Þá er einnig hollt að minnast orða umbótamannsins Baldvins Einarssonar: “Það eru ekki landkostir og blíðviðri og gull og silfur og eðalsteinar, sem gera þjóðirnar farsælar og voldugar og ríkar, heldur það hugarfar eða sá andi sem býr með þjóðinni”. Hann vann þjóð sinni af heilum hug og skildi að “allt hugvit og þekking hjaðnar sem blekking sé hjartað ei með sem undir slær”. Guð gefi að okkur Íslendingum farnist nú að mæta áskorunum okkar af einlægum vilja og heilum hug og efla samkennd okkar.

Að hjartað sé með sem undir slær. Þessi orð leiða hugann að kvöldspjalli í útvarpi sem ég átti eitt sinn við Jónas Jónasson. Hann spurði mig m.a. hvað ég teldi mest hafa mótað mig og lífsskoðanir mínar. Ég svaraði, að uppeldi fósturforeldra minna, þátttaka mín í barnastarfi kirkjunnar og KFUM og kristinfræðsla í barna- og unglingaskóla hefði líklega ráðið mestu þar um. Svar mitt leiddi síðan til umræðu um kennslu í kristinfræði í skólum, þar sem ég leyfði mér að segja að ég teldi að þessari kennslu hefði mjög hrakað á Íslandi síðan ég gekk í skóla. Stefna, sem ég vildi kalla rekaldsstefnu virtist nú ríkja. Nútímakennslufræði byði, að börnin mættu sjálf velja hvort þau fengju kennslu í kristinfræði eða ekki og tregðu gætti hjá mörgum kennurum til að kenna kristinfræði, siðfræði væri ákjósanlegra kennsluefni að þeirra mati og prestar hinir gömlu lærifeður Íslendinga í gegnum aldir væru ekki auðfúsugestir til slíkrar kennslu í skólum lengur. Ég spurði hvernig börn viljum við skila samfélagi okkar og færði síðan rök fyrir því að þótt börnin lærðu ekki nema boðorðin tíu, sem væru til þess fallin að breyta hugsun og athöfn, væri siðferði kristninnar, boðskapur sem kæmi þeim að góðu í lífinu, tryggðu þau eða fjarlægðu frá syndum og ég spurði hvernig fólk ætlum við að ala upp í framtíðinni án þekkingar á a. m. k. boðorðunum. Ef svo væri ekki byði það upp á andlega fátækt.Ég held því miður að það hafi ekki orðið mikil breyting á þessu.  Menntun barna er margslungið viðfangsefni og fáskipti okkar um kristilega uppfræðslu  barna okkar um inntak kristninnar ersannarlega þungur dómur. Ég vil taka það fram að barnastarf kirkjunnar er frábær stuðningur við barnauppeldi heimilanna þar sem börnum er kennt að elska Guð og biðja. Rökin fyrir því að minnka kristinfræði- kennslu í skólum munu vera að okkur beri að taka tillit til annarra trúarskoðana í fjölmenningarþjóðfélagi okkar. Hvorttveggja getur þó átt samleið og virðing fyrir trú annarra þarf ekki að þýða að við leggjum okkar trúaruppfræðslu í skólum til hliðar og kennsla í kristinfræði þýðir ekki að verið sé að ófrægja aðrar trúarskoðanir eða að leggja til atlögu við þær.Á þeim umbrotatímum sem við lifum þurfum við að hafa vilja til að þroska gildi kristindómsins og þar með andlega og veraldlega velferð barna okkar, skapa þeim heilbrigð lífsviðhorf. Við getum notið efnahagslegrar velferðar utan sem innan veggja efnahagsbandalaga, en við vinnum svo afar lítið ef andleg velferð okkar sjálfra og barna okkar fylgist ekki að.

Áramótaheit mitt sem ég vann í fyrra er stutt og einfalt og fjallar um kærleikann. Ég sat í biðstofu heilsugæslustöðvar skömmu fyrir jólin 2015og á meðan ég beið þess að fá inflúensusprautu  las ég í lítilli ljóðabók eftir Sigurbjörn Þorkelsson. Ég hafði engin skriffæri við hendina og lagði eitt ljóða hans á minnið. Ég vona að ég fari rétt með það:

Elskaðu á meðan þú lifir,

elskaðu fólkið þitt á meðan það lifir.

Þegar fólkið þitt er dáið er of seint að sýna því

umhyggju, virðingu og ást svo það geti notið þess.

 

Þetta er ekki torskilið. Vandinn er hinsvegar að temja sér daglega kærleika og umhyggju fyrir öðrum, að hjartað sé með sem undir slær. Við þekkjum öll umfjöllun Korintubréfsins um kærleikann, óðinn til kærleikans. Tileinkun okkar við kærleikann er mikilvæg og í því sambandi  vil ég vitna til orða Helen Keller sem þrátt fyrir að vera bæði blind og heyrnarlaus vann sér heimsathygli fyrir störf sín:

Tilvitnun:

“Hvenær mun okkur endanlega skiljast að við erum öll skyld hvert öðru, að við eru öll sömu eindar? Þar tilandi kærleikans til náungans, án tillits til kynþáttar, litar eða trúar gagntekur  veröldina, gefur lífi okkar og athöfnum gildi og við myndum bræðralag, þar til hin mikla mergð fólks fyllist ábyrgðartilfinningu hvers til annars, mun félagslegu réttlæti aldrei verða náð”. Tilvitnun lýkur.

Og ég vil færa hér fram aðra tilvitnun um kærleikann. Hún er eftir kanadíska indíánahöfðingjann Dan George sem lést 1981. Hún er svona:

“Kærleikur er eitthvað sem þú og ég verðum að eiga. Við verðum að eiga hann vegna þess að andi vor nærist á honum. Við verðum að eiga hann vegna þess að án hans verðum við máttlítil og veikburða. Sjálfstraust okkar þverr án kærleika. Djörfung okkar hverfur. Við getum ekki horft í trúfesti til heimsins. Við hverfum inn á við og förum að nærast á eigin eðlisþáttum, og smám saman eyðum við honum sjálf. Full kærleika erum við skapandi. Full kærleika höldum við óþreytandi áfram. Full kærleika og eingöngu í krafti hans getum við fórnað okkur fyrir aðra”. Tilvitnun lýkur.

 

Já, spurningin “Hvert fer þú?” á ætíð erindi við okkur. Skilningur okkar á spurningunni getur verið margþættur og þarafleiðandi einnig svarið. Framtíð mannkynsins er komin undir því að við finnum rétt svör við fjölmörgum spurningum, að við grundum rétt viðbrögð og framkvæmdir.Stórátaks er þörf í umgengni okkar við Móður Jörð fyrir framtíðarkynslóðir en spurningin horfireinnig til okkar sem einstaklinga og til okkar Íslendinga sem þjóðar. Við viljum öll lifa hamingjusömu lífi og tryggja afkomendum okkar þess sama. Tryggja góð lífsskilyrði á Íslandi um leið og við stuðlum að lausnum á hinum fjölmörgu vandamálum sem jarðarbúar horfast í augu við. Við lifum góðæri á Íslandi og nýverið hafa birst tölur sem spá um góðan hagvöxt á þessu ári. Hvernig viljum við nesta okkur til þess ferðalags sem líf okkar er? Hvaða gildi viljum við tileinka okkur umfram þau sem við eigum í kristilegu hugarfari – boðorðunum.  Að vera sjálfum okkur trú er sjálfgefið – að aga okkur sjálf og gera alltaf okkar besta – ávinna okkur rétt til sjálfsvirðingar – beita skapandi hugsun – vera alltaf tilbúin til að læra – víkka sjóndeildarhringinn – og gleyma sjálfshyggju okkar á stundum og hugsa um velferð annarra. Við búum vel að menntun okkar og félagslegri þjónustu, en á þessum sviðum verðum við samt að gera betur – miklu betur. Hyrningarsteinn íslensks þjóðfélags í hraðvaxandi samkeppni alþjóðasamvinnu og samkeppni liggur í menntun. Við höfum reyndar staðið okkur vel. Háskóli Íslands er í fremstu röð. Hann er í 201 – 250 sæti á styrkleikalista THE af 17 þúsund háskólum í heiminum og vinnur að yfir 300 samstarfsverkefnum á ári, svo sem á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, orkumála og ferðaþjónustu. Hann skorar næsthæst á Norðulöndum mælt í tilvitnunum í alþjóðlega viðurkenndum tímaritum þrátt fyrir að heildartekjur hans, þ.e. fjárveitingar og sértekjur séu á hvern nemanda mun lægri en í öðrum norrænum ríkjum. En við þurfum að gera enn betur í að auka skilning okkar á mikilvægi þess að rækta þau frækorn sem við eigum til að viðhalda fyrirmyndarsamfélagi og velferðarríki á Íslandi. Af nógu er að taka hvert sem við lítum. Við getum t.d. ekki sætt okkur við að fimmtungur þeirra sem bíða nánast  á göngum Landspítalans eftir dvalarrými, deyi áður en þeir komast inn á viðeigandi stofnun.

Finnum þann kærleika í okkur að vinna að því að byggja hér enn betra velferðarsamfélag í anda kærleika, vináttu og jöfnuðar.

Sálmurinn “Hvað boðar nýárs blessuð sól” er afar falleg trúarjátning sem vekur okkur til umhugsunar um líf okkar og tilveru. Við skulum svara spurningunni með því að staðfesta um þessi áramót að halda áfram lífi okkar í anda trúarjátningar okkar og vinna þess heit að lifa til framtíðar í anda fagnaðarerindis Jesú um trú, von og kærleika.

Gleðilegt ár

Helgi Ágústsson, fv. sendiherra og ráðuneytisstjóri

Flutt í Kópavogskirkju við guðsþjónustu kl. 14:00 á Nýársdag 2018

Prestur: Sr. Sigurður Arnarsson.

Næsta guðsþjónusta og sunnudagaskóli

Næsta guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 14. janúar n.k. kl.11:00.  Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari. Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Guðsþjónustunni verður útvarpað.  Sunnudagaskólinn hefur aftur göngu sína eftir jólafrí í safnaðarheimilinu Borgum einnig á sama degi og tíma.

Prédikun dr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups í Kópavogskirkju á Gamlársdag

Gamlárskvöld 2017Kópavogskirkja

 

Matt.28 16-18

 

Fortíð mína fel ég miskunn þinni, nútíðina elsku þinni, framtíðina forsjá þinni, frelsari minn og Drottinn. Amen

Ég las niðurlag Matteusarguðspjalls þar sem er sagt frá því þegar Jesús kom til lærisveina sinna og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu .. Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Þú kannast við þessi orð, þau eru rifjuð upp við hverja skírn. Hann sem fæddist í fjárhúsinu í Betlehem og dó á krossi í Jerúsalem, reis upp frá dauðum og sagði  þetta við ráðvillta vini sína. Ætla mætti að þeir hafi verið undrandi á þessari yfirlýsingu, enda sumir í vafa, segir guðspjallið. En hann sendi þá út í heiminn til að kenna og skíra og vita að hann verði með þeim alla daga, allt til enda veraldarinnar. Þess vegna erum við hér og fáum að mæta áramótum í birtu hans. „Til enda veraldar“ getur merkt til allra heimshorna, um alla heimskringluna, á heimsenda – eða jafnvel „út fyrir endimörk alheimsins!“ Eða allt til þess að veröldin hefur runnið sitt skeið á enda. Það er sú tilfinning, sem gjarna sest að á áramótum, enn eitt ár hverfur í aldanna skaut og styttist það sem eftir er. Og við höfum ekkert vald, enga stjórn á því.  Oft upplifir maður einmitt „enda veraldar“- heimsenda – það sem ógnar tilveru manns, lokar leiðum, tekur af manni völdin.

Allt vald er mér gefið, segir Jesús, hinn krossfesti og upprisni. Þetta vald birtist í vanmætti og varnaleysi barnsins í Betlehem, bróðurins við Galíleuvatn, biðjandans í Getsemane, bandingjans á Golgata.Og það vald mun sigra. Það ryðst samt ekki inn á neinn, brýst ekki í gegn um hindranir manns og fyrirvara. Menn verða að ljúka upp fyrir orði hans og anda. Allt vald segir Jesús- allt megnar hann nema eitt, hann megnar ekki að þvinga þann sem vill ekki ljúka upp fyrir honum. Af því að hann er kærleikur og kærleikurinn megnar allt, nema að þvinga.

Í trausti til orða hans kemur kristið fólk saman fyrsta dag hverrar viku árið um kring til að eflast í von og trú, signa sig og heiminn krossins merki. Þess vegna bera kristnir foreldrar börn sín til skírnar til að fela þau á hendur því valdi sem sigra mun allt um síðir, valdi ljóss og friðar.

Nú þykir víst ófínt að bera börn til skírnar. Barnið á að fá að ráða sjálft. Með sömu rökum ættum við að forðast að kenna barni móðurmál. Leyfa því að ráða þegar það hefur aldur og þroska til. Við vitum samt að það gengur ekki. Án móðurmáls, án grundvallar, án fótfestu í móðurmáli, mun barnið seint ná að þroska hugsun og mál til að geta tjáð sig á skapandi hátt í  síbreytilegum aðstæðum. Sama á við um trúna. Bænin og barnatrúin myndar grundvöll að andlegum og trúarlegum þroska, Biblíusögurnar, hefðirnar og sálmarnir, mynda grunn til að standa á til að mæta því óvænta, óvissa, óttalega tilverunnar, og tengja við uppsprettu kærleika og vonar.

Sem ungur skólastrákur var ég í garðavinnu hér í lóðunum hér í nágrenni við nýreista Kópavogskirkju. Það var roskinn kennari sem var verkstjóri. Hann vitnaði án afláts í Halldór Laxness og Þórberg, kunni heilu einræðurnar úr bókum þeirra. Umfram allt þar sem var gert lítið úr trúnni, hann vissi hverra manna ég var. Og nýja kirkjan hér fyrir ofan. „Fyrir þær örfáu, fávísu hræður sem enn trúa,“ sagði hann í hneykslunartóni. Þetta var auðvitað ekkert annað en einelti, en það orð var víst ekki til á þeim tímum. Honum fannst þetta græskulaus stríðni, en líka hugsjón. En svona hefur þetta verið löngum, og er enn. Óþol gegn trú og kirkjuAndspyrna gegn Guði. Þarna var samt hugmyndafræðin á hreinu. Hann vitnaði í Karl Marx sáluga, sem sagði að trúarbrögðin væru ópíum fólksins.  Til að opna augu fólks fyrir aðstæðum sínum væri nauðsynlegt að útrýma trúnni. Þá fyrst myndi fólk  fá kraft til að rísa gegn aðstæðum sínum. Þessari uppskrift fylgdi svo Lenín af mikilli einurð og hvatti til þess að öllum kirkjum yrði eytt og allir prestar drepnir.Stalín fylgdi því eftir af öllu afli. Það má hafa þetta í huga nú þegar minnst hefur verið aldarafmælis rússnesku byltingarinnar. Þar var hart gengið fram í að uppræta trúarhætti og hefðir með öllu, í nafni vísindalegs sósíalisma.

Marx hafði vafalaust rétt fyrir sér að því leyti að oft hefur trúin verið misnotuð í þágu valdsins, kúgunartæki í höndum spilltra manna. Deyfilyf, svæfill samviskunnar. Ó, jú, satt er það. Trú er jú eitthvert máttugasta reginafl mannssálarinnar og sem auðvelt er að afbaka, misnota og virkja til ills. En í höndum Krists, nærð af orði hans, bæn og anda, þá er hún samt siguraflið í hverri raun og vanda, ótta og vá.

Hugmyndafræðin um að alræði öreiganna skyldi innleiða hið fullkomna samfélag á jörðu var ekkert nema trúarbrögð og sem leiddi  til ólýsanlegra hörmunga. Sama er að segja um hugmyndir Hitlers um yfirburði þýsks þjóðernis og menningar. Úr þessum hugmyndum voru smíðaðar djöfullegar drápsvélar sem tortímdu milljónum með kerfisbundnum hætti í nafni framtíðarlandsins. Virkustu mannhatursmaskínur og drápsvélar allra tíma voru hin guðlausu ríki 20. aldarinnar, Sovétríkin, Þýskaland nasismans og Kína. Nú í dag heldur Norður Kórea  uppi merki hins guðlausa samfélags, og síst er mannúðinni fyrir að fara þar. Skyldi vera samhengi á milli guðleysisstefnunnar, hatursins á kristindóminum og grimmdarinnar og mannfyrirlitningarinnar sem þessar helstefnur ólu af sér? Alla vega ættum við að gefa því gaum hvað gerist þegar Jesú Kristi er rýmt út úr lífi einstaklinga og samfélags – eins og virðist keppikefli svo margra sem ráða uppeldi og skoðanamótun á Íslandi í dag. Við verðum vitni að útbreiddri trúarfælni og gengdarlaust er blásið að glæðum andúðar á kirkju og kristni. Hvað býr þar að baki? Sannleiksást? Réttlætiskennd? Frelsishugsjón? Draumurinn um hið guðlausa samfélag – eða bara geðvonska?

Prestur nokkur sagði frá því að hann var í leigubíl í London, bílstjórinn, múslimi var ómyrkur í máli um ástandið á Vesturlöndum: „Þið hafið glatað ykkar andlega grundvelli. Kirkjurnar ykkar eru tómar. Þið eruð hræddir við andlegan grundvöll okkar, vegna þess að þið gerið ykkur grein fyrir því hve sterkur hann er.“

Höfum við í alvöru glatað okkar andlega grundvelli?

Á það við  um Ísland í dag, um þessi áramót? Og hvernig gætum við þá endurheimt hann?

Hver er okkar andlegi grundvöllur? Á hverju stöndum við, hvar staðsetjum við okkur þegar áföllin dynja yfir, þegar fótfestan svíkur?

En eru ekki brestir í þessum grunni? Er Kristur ekki stöðugt á undanhaldi? Leigubílstjórinn hafði rétt fyrir sér í því að við höfum vanrækt hinn andlega grundvöll, andlegar rætur og uppsprettu, hefðir sem mótað hafa siðmenningu sem lagði til viðmið frelsis og mannúðar. Þegar stöðugt er grafið undan þeim grunni, þegar þeim brunnum er markvisst lokað, skorið er á þær rætur, bænaljósin kæfð, hvað tekur þá við? Þegar hið trúarlega er gegndarlaust niðrað og nítt í nafni frelsisins, og hefðir og helgi kristninnar jaðarsett. Hvað tekur þá við? Manni virðist sem svo margt í uppeldi nútímans miðist við að uppfylla þarfir barnanna, án þess að kenna þeim að bera umhyggju fyrir öðrum. Orð Jesú að sælla sé að gefa en þiggja, gleymast gjarna.Hefur það aukið á hamingju og gleði að gleyma því? Hefur markaðshyggjan náð betri árangri í að tryggja gott mannlíf og heilbrigði sálar og anda?  Hefur það aukið á andlega vellíðan unga fólksins að innræta því tortryggni gegn trú og trúariðkun, kristnum sið, eins og markvisst er gert.

Viðhorfskannanir í Evrópu sýna fram á að aldrei hafi fleira ungt fólk sagst vera trúlaust. Og meiri hlutinn segist vera án vonar um framtíð. Vonleysi og andleg vanlíðan hrekur ungt fólk inn á flóttaleiðir vímuefnanna, eða í fangið á pólitískum og trúarlegum ofstækismönnum og hugmyndakerfum. Það er grafalvarlegt.

Við erum einatt völt og reikul, með hik okkar og efa og hálfvolga skoðun, ótta og kvíða. En grunnurinn sem er Jesús Kristur bifast ekki né svíkur, viljinn góði, valdið milda bregst ekki.  Bænin, sem er að grípa í þá huldu hönd sem hjálpar og huggar. Munum líka að það er betra að standa valtur á öruggum grunni en öruggur á völtum grunni.

Hvernig endurheimtum við hinn andlega grundvöll? Með því að rækja hinar kristnu hefðir og helgidóma, bæn og guðsþjónustu. Við saman og hvert og eitt. Að skýla bænarloganum smáa og blaktandi trúarljósinu. –

Þá fylgir trúarvissan í kjölfarið. Þannig er það og verður.

Saga er sögð af gömlum presti sem sagði: Þegar ég var ungur dreymdi mig um að breyta heiminum. Þegar ég varð eldri sá ég að það var mér ofviða svo ég ákvað að breyta landinu mínu. Þegar frá leið sá ég að það var líka of mikið, svo ég vildi leggja mig fram um breyta borginni minni. Brátt sá ég að ég réði ekki við það svo ég bað þess að geta breytt fjölskyldu minni.  Nú bið ég þess eins að ég geti breytt sjálfum mér.“

Já, ætli margur gæti ekki haft sömu sögu að segja?  Sannleikurinn er sá að heimurinn lætur ekki breyta sér, ekki borgin, ekki pólitíkin, ekki okkar nánustu, enginn er þess umkominn að breyta öðrum, af því að við erum syndarar. Öll með tölu. Samt er alltaf verið að leita að hinum fullkomna leiðtoga og stóru hugsjón eða nýju tækni sem breyti heiminum. Nei, heimurinn lætur ekki breyta sér. Við erum öll syndarar. Sá sem í raun og veru glímir við sjálfan sig, fíkn sína, hneigðir gerir sér grein fyrir því. Þar þarf æðri mátt til. Það er Guð. Guð sem Jesús birtir, barnið í Betlehem, hinn krossfesti frelsari; Guð sem Jesús nefnir föður og segir að við megum ávarpa sem föður okkar,sem börn Guðs sem hann elskar, fyrirgefur, huggar, reisir upp.

Allt vald er mér gefið, segir Jesús. Hann segir líka: Ég er ljós heimsins. Ég er ljós lífsins. Sérhvert jólaljós bendir á hann, hóglátt og hávaðalaust bendir það á valdið æðsta í veröld hér. „Enn bregður Drottins birtu á byggðir sérhvers lands, því líkn Guðs eilíf lifir…“ var sungið hér áðan. Skáldið Sigurður Pálsson,sem lést á þessu ári, blessuð sé minning hans, orti:

Máttvana máttuga

ljós á kerti

lýsir betur en megatonn

 

Ósýnilegt vald þitt tryllir

magnhyggjumenn

ofbeldisdýrkendur

valdrembur

 

Þeir geta ekki

á heilum sér tekið

vald þitt er ósýnilegt

 

Litla, stóra kerti

á borði í anda

í minni í hjarta

á altari austurfjallanna

 

Viltu lýsa okkur áfram

skildu okkur ekki eftir

lýstu okkur áfram

 

Hans er allt vald á himni og á jörðu, tíma og eilífð og hann er með okkur alla daga, allt til enda veraldar.

Takk fyrir árið sem er að líða. Guð gefi þér gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni.

Jól og áramót

24. desember, Aðfangadagur,
kl15:00.  Beðið eftir jólunum.  Fjölskylduhelgistund.  Stór hópur barna úr Skólakór Kársnes syngur undir stjórn Þóru Marteinsdóttur.
Kl. 17.30 Brasstríó og Lenka Mátéová, organisti flytja hátíðartónlist
KL 18  Aftansöngur á Aðfangadag. Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar flutt. María Jónsdóttir  syngur einsöng  .
25. desember. Jóladagur.  Kl. 14:00.  Hátíðarguðsþjónusta.  Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar flutt.  Ásta Ágústsdóttir, djákni prédikar.
25. desember. Jóladagur. Kl 15:15.  Hátíðarguðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.
31. desember. Gamlársdagur. Kl. 18:00.  Aftansöngur.  Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar flutt.   María Jónsdóttir syngur einsöng.
1. janúar.  Nýjársdagur. Kl. 14:00.  Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra flytur hátíðarræðu.  Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar.
Sóknarprestur, prédikar og þjónar í öllum guðsþjónustum nema annað sé tekið fram. Kór Kópavogskirkju syngur í öllum guðsþjónustum undir stjórn Lenku Mátéová nema annað sé tekið fram. Nánar á www.kopavogskirkja.is

Aðventutónleikar

Aðventutónleikar Kórs Kópavogskirkju verða miðvikudaginn 13. desember kl. 20:00 í safnaðarheimili Kópavogskirkju.

Rétt undir sólinni

Sunnudaginn 10. desember n.k. kl.11:00 verður bókmenntaguðsþjónusta í Kópavogskirkju. Halldór Friðrik Þorsteinsson, segir frá nýútkominni ferðasögu sinni um vestur og suðurhluta Afríku „Rétt undir sólinni“.  Lesið verður upp úr bókinni og Halldór mun segja frá. Leikin verður tónlist tengd efni bókarinnar.