Hugleiðing flutt á Nýjársdegi
Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands flutti eftirfarandi hugleiðingu í hátíðarguðsþjónustu í Kópavogskirkju á Nýjársdegi 2015
“Ég var að koma að Fitjum með um þúsund fjár eftir viku smalamennsku með bændum á Rangárvallaafrétti. Síminn búinn að vera batteríislaus í viku og ég algjörlega utan þjónustusvæðis fyrir mína nánustu. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af sjálfstæðum börnum mínum í góðri umsjón eiginmannsins, en ákvað þó að skella símanum í rafmagn, þegar það bauðst. Duttu þá inn skilaboð frá Kópavogsklerknum – æskuvini mínum af Nesinu og skólafélaga úr Menntaskólanum. Og þegar maður er að koma af fjalli, þar sem vaknað er klukkan sex á morgnana, sest í hnakkinn klukkan átta og gengið á fjöll fram í myrkur, þá telur maður sig geta allt. Þess vegna stend ég hér – því þegar beiðnin frá Sigurði kom um að halda þessa tölu, fannst mér það minnsta mál í heimi. Um leið og búið var að rétta og ég var komin til byggða, fóru að renna á mig tvær grímur yfir hvatvísinni…..
Ég ákvað því í ár að kaupa 200 jólakort í stað þess að föndra þau, eins og ég hef alla tíð gert, og nota heldur tímann til lesturs. Ég fann til bók nokkra frá árinu 1976, þar sem predikanir langafa míns, séra Sigurjóns Jónssonar á Kirkjubæ í Hróarstungu eru ritaðar. “Ég gæti sloppið billega… kannski finn ég bara eina góða predikun og flyt hana?” hugsaði ég. Þar sem langafi Sigurjón lést áður en ég fæddist – og er ég nú samkvæmt nýrri skilgreiningu orðin gott betur en roskin – átti ég nú ekki von á því að mikið gagn væri í þessum ræðum – skrifaðar á miðri síðustu öld. En annað átti eftir að koma í ljós. Þegar umræðan um kirkjuferðir skólabarna á aðventu náðu hámarki um miðjan desembermánuð, sökkti ég mér ofan í ræðurnar og fann þar djúpan samhljóm. Séra Sigurjón lagði áherslu á að það skipti ekki máli hvaða trú maðurinn játar. Hann segir í einni tölu sinni: “Þeim fer fjölgandi, sem eru að fráhverfast umbúðakristni og í hennar stað flytja ómengaða kristna kenningu. En kjarni þeirrar kenningar er sá, að Guð sé kærleikur og þar sem hann sé faðir allra manna, ætti mannkynið allt að skoðast sem ein fjölskylda, bundin sáttmála bræðralagsins. Þessi skoðun á fagnaðarerindinu er langlíklegust til að vinna hjörtu manna, hvort sem þeir búa í austri eða vestri.” Og hann bætti við: