Skírn

Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni. Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram á heimili barnsins.

Gömul hefð er einnig fyrir því að barnið sem skírt er sé fært í hvítan skírnarkjól sem er tákn fyrirgefningar syndanna. Kjóllinn er síður, sem táknar það að skírnarbarnið á að vaxa í trú, von og kærleika. Aðstandendur velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar heita einnig guðfeðgin og eru aldrei þau aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu), en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginana sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú. Í eigu kirkjunnar eru nokkrir skírnarkjólar sem fólk getur fengið lánaða.

Nýjasti skírnarkjóllinn, sem  heklaður er og hannaður  af Ingibjörgu Sigurðardóttur, var færður kirkjunni að gjöf þann 11. maí 2003.